EN

G.F. Händel: Waft her, angels, through the skies

Þegar Händel hleypti heimdraganum, ungur að árum, lá leið hans fyrst til Hamborgar þar sem hann fékk starf sem fiðluleikari við óperuhljómsveitina. Þar voru fyrstu tvær óperur hans færðar upp, árið 1705 þegar tónskáldið stóð á tvítugu. Ári síðar hélt hann til Ítalíu og dvaldist þar næstu árin, í Flórens, Róm og víðar. Hann sá sér farborða með tónsmíðum af ýmsu tagi, ekki síst kantötum, óratoríum og óperum og varð mjög handgenginn hinni ítölsku óperuhefð, opera seria, þar sem efniviðurinn var sóttur í sagnasjóð fornaldar.

 

Händel hélt áfram óperusmíð af krafti eftir að hann fluttist til Englands árið 1710. Hvert verkið á fætur öðru rann úr penna hans og var fært upp í King’s Theatre í Haymarket í Lundúnum, öll í ítölskum stíl og sungin á ítölsku. Händel hafði þó ekki dvalist ýkja lengi með enskum þegar hann fór að reyna sig við að semja sviðsverk á máli innfæddra og árið 1718 voru tvö slík frumflutt, Acis og Galatea og óratorían Ester. Eftir því sem árin liðu tók Händel að sinna óratoríum meira, sumpart vegna þess að enskir áheyrendur dofnuðu í áhuga sínum á ítölsku óperunum og vildu heldur heyra verk á móðurmálinu. Uppsetning óratoríanna var líka einfaldari og ódýrari, kallaði ekki á viðamikla leikhúsumgjörð. Efniviðurinn var allajafna sóttur í Gamla testamentið en textahöfundar sneru biblíutextanum í bundið mál og löguðu að kröfum um dramatíska framvindu verksins. Líkt og í ítölsku óperunum skiptast söngles og aríur á í óratoríum Händels en áhrifamiklir kórkaflar eru jafnframt aðalsmerki þeirra. 

 

Jefta er síðasta óratorían sem Händel auðnaðist að semja. Hann lauk henni árið 1752, með herkjum, má segja, því hann var orðinn sjóndapur. Efnið er sótt í Dómarabókina (11. kafla). Þar segir frá hraustmenninu Jefta sem fenginn er til þess að leiða her Ísraelsmanna gegn Ammónítum sem á þá herja. Jefta heitir á Guð að veita sér sigur og lofar í staðinn að fórna honum því fyrsta sem mæti sér þegar heim kemur. Ísraelsmenn sigra og þegar Jefta snýr heim kemur einkadóttir hans út á móti honum. Hann verður yfirkominn af sorg en getur ekki gengið á bak orða sinna. Hann undirbýr fórnina og syngur aríuna Waft her, angels, through the skies þar sem hann biður þess að dóttirin verði numin upp til himna.

 

Messías, sem Händel samdi á rúmum þremur vikum árið 1742, tekur öllum óratoríum hans fram í vinsældum. En verkið sker sig einnig úr fyrir það að texti þess er sóttur beint í biblíuna en ekki umortur. Það hefst á forleik en síðan taka við tveir þættir þar sem tenórsöngvari flytur áheyrendum boðskap spádómsbókar Jesaja (40.1–4) um að huggun sé í nánd og menn skuli greiða Drottni veg um eyðimörkina, ryðja honum beina braut.