EN

Gabriel Fauré: Forleikur að Pénélope

Gabriel Urbain Fauré (1845–1924) fæddist í suður-franska bænum Pamiers sem liggur nær rótum Pýreneaskagans. Tónlistarhæfileikar hans komu snemma í ljós og var hann sendur í tónlistarnám í París níu ára gamall þar sem hann stundaði nám í orgelleik og kórstjórn við kristilegan tónlistarskóla næstu ellefu árin. Meðal kennara hans þar var Camille Saint-Saëns og með þeim tókst ævilöng vinátta. Eftir lokapróf frá skólanum vann Fauré fyrir sér sem organisti og átti á næstu árum eftir að þjóna sem slíkur í mörgum af helstu kirkjum Parísarborgar. Rúmlega fimmtugur fékk hann prófessorsstöðu við Konservatoríið í París og 1905 var hann skipaður skólastjóri stofnunarinnar og gegndi hann stöðunni í fimmtán ár. Meðal nemenda Fauré við skólann voru Maurice Ravel, George Enescu og Nadia Boulanger. Tónskáldið Gabriel Fauré skildi eftir sig á annað hundrað tónsmíðar, þar á meðal tíu hljómsveitarverk og tvær óperur.

Árið 1907 var Fauré kynntur fyrir Wagnersöngkonunni Lucienne Bréval sem lét í ljós undrun sína yfir því að hann hefði ekki komið í verk að semja óperu. Í framhaldinu kynnti hún Fauré fyrir ungum rithöfundi, René Fauchois, sem nýlega hafði samið leikrit byggt á Ódysseifskviðu og fjallar um endurkomu söguhetjunnar til Íþöku. Með þeim tókst samvinna en vegna anna tónskáldsins við Konservatoríið sóttist honum verkið seint enda sumrin eini tíminn sem gafst til tónsmíða. Óperan var loks frumflutt í Monte Carlo við frekar daufar undirtektir en frumflutningnum í París tveimur mánuðum síðar í Théâtre des Champs-Elysées 10. maí 1913 var vel tekið. Aðeins tæpum þremur vikum síðar var Vorblót Stravinskíjs frumflutt í sama húsi og féll ópera Faurés sem og flest annað í listalífi Parísar í skuggann af því sögufræga hneyksli. Nú á tímum ratar Pénélope sjaldan á fjalir óperuhúsa.