EN

Gaetano Donizetti: Quel guardo … so anch’io la virtù magica

Gaetano Donizetti (1797–1848) var einstaklega afkastamikið tónskáld og samdi hann hátt í 70 óperur. Hann var, ásamt Gioachino Rossini og Vincenzo Bellini, leiðandi í þróun bel canto-stílsins á fyrri hluta 19. aldar og hafði tónlist hans meðal annars mikil áhrif á Giuseppe Verdi. Textann við Don Pasquale skrifaði Giovanni Ruffini að mestu, en í um 50 ár eftir frumflutning óperunnar var óljóst hver væri raunverulegur höfundur, þar sem tónskáldið gerði á honum svo margar breytingar að Ruffini neitaði að setja nafn sitt við útgáfuna. Aríuna syngur unga ekkjan Norina. Hún og aðalsmaðurinn Ernesto eru ástfangin en frændi Ernestos, Don Pasquale, er ekki samþykkur hjónabandinu. Í þessari senu situr Norina ein og les upphátt úr bók. Bókin er ástarsaga, mögulega hluti af rauðu seríunni, og Norina grínast með það að sjálf viti hún nú sitthvað um ástina og að ekki sé allt eins og skrifað er um í bókum. 

Hanna Ágústa Olgeirsdóttir