Georg Friedrich Händel: Concerto grosso op. 3 nr. 2
Hljóðfæratónlist var aldrei nema aukabúgrein hjá Georg Friedrich Händel (1685–1759) sem varði megninu af starfsævi sinni í að semja óperur og óratoríur. Þó samdi hann ýmislegt markvert af því tagi, meðal annars yfir 40 konserta af ýmsum toga. Meðal þeirra eru tvær syrpur verka sem kallast concerto grosso og eru að sumu leyti undir áhrifum Corellis, enda lágu leiðir þeirra saman þegar Händel dvaldist í Rómaborg á sínum yngri árum. Concerto grosso átti uppruna sinn á Ítalíu á 17. öld og grundvallast á skiptingu hljómsveitarinnar í einleikshóp og stærri sveit. Concertino (litli konsertinn) er fámennur hópur, oftast tvær fiðlur og selló, en concerto grosso (stóri konsertinn) tekur undir á köflum. Ekkert eitt hljóðfæri er ráðandi og hóparnir tveir eru ekki aðgreindir hvað stefjaefni snertir. Hlutverk stærri hópsins er einungis að gefa aukna hljómfyllingu þegar við á; einleikararnir draga sig aldrei í hlé heldur spila frá fyrsta takti til hins síðasta.
Höfundarréttur í nútímaskilningi kom ekki til sögunnar fyrr en á 19. öld. Þegar tónverk voru á annað borð komin í umferð kom fátt í veg fyrir að óprúttnir forleggjarar þrykktu þau án leyfis og hirtu gróðann sjálfir. Vinsæl tónskáld eins og Händel þurftu stöðugt að vera á varðbergi fyrir slíku og dugði ekki alltaf til. Konsertarnir sex op. 3 komu út á prenti hjá forleggjaranum John Walsh í Lundúnum árið 1734 en tónskáldið sjálft hafði engan pata af útgáfunni fyrr en hún var komin á markað. Walsh tók einfaldlega eldri verk Händels sem höfðu hlotið útbreiðslu í handritum og gaf þau út án þess að óska leyfis. Tónlistina samdi Händel sennilega á árunum um 1715–30; fyrsti þáttur konsertsins nr. 2 er skyldur kafla úr Brockes-passíu Händels frá árinu 1716 og lokaþátturinn er gavotta sem minnir nokkuð á krýningarsönginn The King Shall Rejoice frá 1727. Ólíkt því sem tíðkaðist í verkum Corellis eru þessir konsertar Händels ekki fyrir strengjasveit einvörðungu. Einnig er gert ráð fyrir óbó-og fagottleikurum og hafa þeir nóg að iðja, enda var vísað til sumra verkanna úr ópus 3 árið 1784 sem „óbókonserta Händels“.