EN

Georg Muffat: Passacaglia úr sónötu nr. 5

Þótt Georg Muffat (um 1645–1704) sé ekki á hvers manns vörum í dag var hann mikilsvirtur á sinni tíð, samtímamaður Pachelbels á síðari hluta 17. aldar. Muffat kom víða við í Evrópu, var fæddur í Frakklandi en átti líklega ættir að rekja til Skotlands, lærði um skeið hjá Jean-Baptiste Lully í París en komst í þjónustu erkibiskupsins af Salzburg árið 1678. Þaðan hélt hann til Ítalíu um skeið en starfaði einnig í Vínarborg og Passau. Tónlist slíks heimsborgara bar vitaskuld í sér þræði sem sóttir voru víða að. Tónsmíðar barokksins höfðu oft ólík einkenni eftir þjóðum en Muffat varð einna fyrstur til þess að sameina hina þrjá helstu stíla barokktónlistar: hinn franska, þýska og ítalska.

Fyrsta útgefna verk Muffats eru fimm sónötur fyrir hljóðfærahóp, Armonico tributo, eða „Hylling hljómanna“ (Salzburg, 1682). Hann samdi þær meðan hann dvaldi á Ítalíu, þar sem hann heyrði fiðlusnillinginn Arcangelo Corelli leika og varð hann nokkur áhrifavaldur. Muffat getur þess í formála fyrir útgáfunni að verkið hafi fyrst hljómað á heimili ítalska meistarans, sem hafi gefið sér góð ráð varðandi útfærslu og stíl. Muffat kaus að kalla Armonico tributo „sónötur“, í hinni breiðari merkingu ítalska orðsins suonare: það sem er leikið en ekki sungið. Þær eru þó í raun concerti grossi því að í þeim skiptast á einleiks- og tutti-kaflar rétt eins og í konsertum ítalska fiðlusnillingsins Arcangelos Corelli. Þótt samspil hljóðfæranna sé undir áhrifum frá Ítalíu ber stíll tónlistarinnar oft keim af frönskum hirðdönsum. Kunnasti þáttur verksins er passacaglia úr sónötu nr. 5, sem hljómar á tónleikum kvöldsins. Þetta eru tilbrigði um endurtekna bassalínu, ekki ósvipaða þeirri sem Bach gaf sér rúmri hálfri öld síðar sem grundvöll Goldberg-tilbrigðanna. Hér skiptast á smáir og stærri hljóðfærahópar, en mesta furðu vekur hve mikla fjölbreytni Muffat laðar úr tónlist sem þrátt fyrir allt hefur einfaldan efnivið.