EN

Georg Philipp Telemann: Alster, svíta

Svítur barokktímans eru af frönskum rótum runnar – eða réttara sagt frá dálæti frönsku hirðarinnar á dansi þar sem Loðvík 14., sólkonungurinn sjálfur, fór fremstur í flokki ásamt tónskáldi sínu, Lully. Við hirðina þóttu leiksýningar og óperur varla boðleg skemmtun nema á undan þeim færi eins konar forleikur, dans með viðeigandi tónlist, og stundum var einnig dansað milli þátta. Þessa ballettþætti mátti svo draga saman í svítur sem leiknar voru án þess að dans fylgdi. Þannig varð til ný tegund hljóðfæratónlistar sem naut mikilla vinsælda á síðari hluta sautjándu aldar og fram eftir þeirri átjándu. Þjóðverjinn Georg Philipp Telemann (1681–1767), sem var maður nýjunga og fjölbreytni, tók þessu nýja formi fagnandi og sendi frá sér hljómsveitarsvítur í hundraðavís á sínum langa og gifturíka tónsmíðaferli. Hin miklu afköst Telemanns hafa stundum orðið til þess að lítið er gert úr inntaki verkanna og listrænu framlagi tónskáldsins. Þá er látið að því liggja að slík fjölda­ framleiðsla gefi ekki færi á ferskleika og snilld heldur hljóti tónskáldið að endurtaka sömu lummurnar. Í seinni tíð hafa þessi viðhorf verið endurmetin og víst er að tónverk eins og Alster-svítan taka af öll tvímæli um hæfileika Telemanns.

Svítan er kennd við eina af þverám Saxelfar, Alster, sem rennur gegnum Hamborg. Telemann tók við stöðu yfirmanns tónlistar­ mála Hansaborgarinnar árið 1721, þegar hann stóð á fertugu. Hann átti þá að baki farsælan feril við hirðirnar í Sorau og Eisenach og sem tónlistarstjóri í Frankfurt am Main. Hann starfaði í Hamborg til dauðadags og samdi fjölda tónverka af öllu tagi og við hvers kyns tilefni. Alster-svítan er að líkindum samin fyrir einhver opinber hátíðahöld í borginni en það er ekki vitað hvenær hún varð til. Hún hefst á forleik í frönskum stíl og í þáttunum sem á eftir fylgja lýsir tónskáldið í tónum ýmsum fyrirbærum í borgarumhverfinu. Hér er til að mynda þáttur um klukkuspilin í borginni, þokkafull sarabanda til heiðurs svönum, þáttur sem vísar í tónlist fjárhirða í grenndinni og óborganlegur þáttur þar sem hermt er eftir froskum og krákum við ána. Í tónlistinni kemur ýmislegt á óvart; froskaþátturinn einkennist af ómstríðum tónbilum og notkun á smástígum tón­ stiga (krómatík) og í fjárhirðaþættinum má einnig heyra óvenju­ legan skala, lýdískan tónstiga með lítilli sjöund, sem áheyrendur nútímans kannast ef til vill fremur við úr djasstónlist. Hér er því engin fjöldaframleiðsla á ferðinni heldur bráðskemmtileg tón­ list, full af hugmyndaauðgi og húmor.