EN

George Gershwin: Girl Crazy, svíta

Tónlist Vínarskólans síðari er sennilega ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar nafn bandaríska tónskáldsins George Gershwin (1898-1937) ber á góma. Ímynd þessa höfuðtónskáld Bandaríkjanna á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar er sennilega ögn alþýðlegri, enda samdi Gershwin ódauðleg dægurlög og söngleiki til jafns við einleikskonserta, tónaljóð og óperur. Við fyrstu sýn eiga strangar tólftónaraðir austurrískra módernista lítið skylt við jazzkenndar, söngrænar laglínur Gershwins, sem öðrum fremur tókst að bræða saman heima bandarískrar dægurtónlistar og klassísku hefðarinnar.

Tengingin er þó ekki úr lausu lofti gripin. George Gershwin var til að mynda mikill aðdáandi Albans Bergs og var hrifningin gagnkvæm. Gershwin greip þannig tækifærið til að hitta Berg þegar hann dvaldi í Vínarborg vorið 1928. Til minningar um þann fund mun Berg hafa gefið Gershwin áritaða ljósmynd af sér sem Gershwin hengdi síðar uppi á vegg á heimili sínu – við hliðina á mynd af hnefaleikamanninum Jack Dempsey. Raunar átti Gershwin líka eftir að kynnast Arnold Schönberg eftir flótta þess síðarnefnda til Bandaríkjanna og leika við hann tennis, en það er önnur saga.

Stefnumótið í Vínarborg átti sér stað ári áður en Berg tók að semja tónlistina við Lulu og tveimur árum áður en gamansamur söngleikur Gershwins, Girl Crazy (1930), var frumsýndur á Broadway. Ef grannt er hlustað má finna jazzkennda þræði í Lulu – til að mynda gerir hljómsveitarlistinn ráð fyrir saxófónleikara. En skyldi Gershwin hafa orðið fyrir áhrifum frá Alban Berg? Það var einmitt það sem Barbara Hannigan vildi kanna þegar hún fékk hugmyndina að Girl Crazy-svítunni, en í henni hljómar tónlist úr söngleik Gershwins í útsetningu í anda Vínarskólans síðari, rétt eins og ef þeir Gershwin og Berg hefðu tekið höndum saman við hljómsveitarskrifin.

Verkið er samið með það í huga að vera flutt samhliða Svítu úr óperunni Lulu og ef marka má Barböru Hannigan má finna tengingar milli verkanna víðar en bara í tónlistinni sjálfri. Persónur á borð við hina stórbrotnu Lulu eru að hennar mati ódauðlegar og vel færar um að skjóta upp kollinum í verkum ýmissa tónskálda – jafnvel eftir að hafa verið myrtar. Þegar hlustað er á hina ómótstæðilegu ástarsöngva Gershwins má þannig vel ímynda sér að þær Lulu og Geschwitz greifynja hafi byrjað nýtt líf í söngleik vestan Atlantsála og syngi þar um ástina á ný.