EN

George Gershwin: Porgy and Bess – A Symphonic Picture

Bandaríska söngleikjaformið var enn að slíta barnsskónum þegar George Gershwin (1898–1937) hóf feril sinn á Broadway. Í upphafi bar mest á revíum þar sem rýr söguþráður hélt uppi röð óskyldra laga eftir ýmsa höfunda, til dæmis í sýningunum sem Florenz Ziegfeld setti á svið og nutu mikillar hylli, hinum svonefndu Ziegfeld Follies. Á þriðja áratug 20. aldar fóru tónskáld að taka söngleikjaformið fastari tökum en áður, ekki síst með tímamótaverkinu Show Boat eftir Jerome Kern, sem hefur dökkan undirtón. Hér var komin fyrirmynd að metnaðarfullum verkum sem gætu jafnvel nálgast óperuformið að gæðum og innblæstri. Rétt eins og í Porgy og Bess eru blökkumenn stór hluti leikhópsins í Show Boat; þrátt fyrir allt var tónlistin eina framlag þeirra sem naut sannmælis í fordómafullu þjóðfélagi aðskilnaðar og haturs: negrasálmar, gospelsöngur, ragtime, blús og djass. Það varð eitt helsta afrek Gershwins að bræða þessa tónlistarstíla saman við „hvítu tónlistina“ á áhrifamikinn og tilgerðarlausan hátt.

Irving Berlin sagði eitt sinn um Gershwin: „Við hinir vorum bara lagasmiðir. George var tónskáld.“ Þar hafði hann á réttu að standa. Gershwin einsetti sér að brúa bilið milli evrópskrar og bandarískrar tónlistar, fyrst með sveinsstykkinu Rhapsody in Blue fyrir píanó og hljómsveit (1924) og síðan í hverju snilldarverkinu á fætur öðru, jafnt í leikhús- sem konsertformi. Hann var fyrsta söngleikjaskáldið sem stúderaði tónsmíðar klassískra og nútímameistara, var þaulkunnugur Wozzeck eftir Alban Berg, lék tennis við Arnold Schönberg, nágranna sinn í Hollywood, og kynntist Ravel þegar hann dvaldi í París að semja Ameríkumann í París árið 1928. Sagan segir að Gershwin hafi beðið Ravel, sem naut mikillar hylli og var sannarlega ekki á flæðiskeri staddur, að taka sig í tónsmíðatíma. Ravel spurði Gershwin á móti hvað hann þénaði á ári af verkum sínum. Gershwin nefndi himinháa fjárhæð – 100.000 Bandaríkjadali – og franska tónskáldið svaraði um hæl: „Þá ættir þú nú frekar að kenna mér.“

Það var árið 1926 sem Gershwin las skáldsöguna Porgy eftir DuBose Hayward. Hann hreifst af henni undir eins, ritaði höfundinum bréf og bað um leyfi til að byggja óperu á söguþræðinum. Örlög blökkumanna höfðu lengi verið Gershwin hugstæð. Æskustöðvar hans voru í Harlem, og meðal fyrstu verka hans var einþáttungurinn Blue Monday (1922), um ástir og örlög blökkumanna. En Hayward var önnum kafinn við að smíða leikrit úr sögunni og því varð ekkert úr áformunum um skeið. Árið 1932 tóku þeir aftur upp þráðinn og sammæltust um að semja óperu í félagi við Ira Gershwin. Það tók Gershwin hálft annað ár að semja tónlistina. Stórum hluta þess tíma varði hann í Charleston í Suður-Karólínu þar sem hann sótti innblástur í kirkjusamkundur, næturklúbba, bænastundir og heimilislíf blökkumanna.

Metropolitan-óperan sýndi nýja verkinu áhuga, en treysti sér ekki til að lofa nema tveimur sýningum á svo eldfimu og ótryggu efni. Að lokum var Porgy og Bess frumsýnt í Alvin-leikhúsinu í New York í október 1935. Sýningarnar urðu 124 talsins, sem þótti lítið á Broadway. Fjárfestar töpuðu öllu því fé sem þeir höfðu lagt í sýninguna en Gershwin missti aldrei trúna á verk sitt og lét sig jafnvel dreyma um að það yrði kvikmyndað, eins og hann ritaði Heyward frá Hollywood í janúar 1937: „Ég er þess fullviss að það er aðeins tímaspursmál hvenær óperan okkar verður framleidd í þessu formi. Tónlistin er stöðugt flutt og áhuginn hvarvetna mikill.“

Fáeinum mánuðum síðar var Gershwin allur. Heilaæxli dró hann til dauða aðeins 38 ára að aldri, og Heyward lést árið 1940. Ira Gershwin var sá eini af þríeykinu sem lifði að sjá Porgy og Bess vinna hvern sigurinn á fætur öðrum í óperuhúsum heimsins. Fyrsta evrópska uppfærslan var í Kaupmannahöfn 1943 þrátt fyrir áköf mótmæli nasistastjórnarinnar – sagt er að danska andspyrnuhreyfingin hafi ítrekað rofið áróðursútvarp nasista frá Berlín með laginu It ain’t necessarily so. Í kjölfarið fylgdu La Scala, Vínaróperan, Glyndebourne, og Metropolitan-óperan árið 1985, ríflega hálfri öld eftir að fyrstu samningaumleitanir höfðu farið fram. Í dag er verkið löngu orðið sígilt, og í raun sparðatíningur að deila um hvort flokka eigi það sem söngleik, óperettu eða óperu. Líklega hentar orðalag tónskáldsins sjálfs, „American Folk Opera,“ verkinu best. Syrpan sem hljómar á tónleikunum 30. október hefur að geyma flest helstu stef óperunnar; það var Robert Russell Bennett, einn helsti Broadway-útsetjari á sinni tíð og náinn samstarfsmaður Gershwins, sem setti svítuna saman árið 1942.

Árni Heimir Ingólfsson