EN

George Gershwin: Rhapsody in Blue

Í Evrópu var djassinn framandi fyrirbæri, glaðvær furðumúsík sem tónskáld færðu upp á stall með fágaðri útfærslu sinni. En í Bandaríkjunum var raunveruleikinn annar; þeldökkir voru kúgaður minnihlutahópur og þarlend tónskáld voru næsta svifasein þegar kom að því að blanda djassáhrifum við klassíska tónlist. Antonín Dvořák hafði á sinni tíð lýst þeirri skoðun sinni að framtíð bandarískrar tónlistar hvíldi á arfi þeldökkra, en nokkrir áratugir liðu þar til hvít bandarísk tónskáld sáu sóknarfæri í tónlist sem lá utan hins „sígilda“ heims. Charles Ives fullyrti að ekki væri hægt að „búa til tónlist úr ragtime fremur en að elda máltíð úr tómatsósu og piparrót“. Það var ekki fyrr en upp úr 1920 að nýir möguleikar opnuðust, bæði hvað snerti framsæknar tónsmíðar og músík sem byggðist á menningararfi hins kúgaða minnihluta.

Fyrstur heimamanna til að bræða saman klassíska hefð og dægurtónlist svo eftir var tekið var George Gershwin (1898–1937). Hann var slíkur afburðapíanisti að hann hætti í skóla fjórtán ára og fór að vinna fyrir sér í dægurtónlistarheimi New York-borgar. Tin Pan Alley var hún kölluð, húsaröðin á 14. stræti á Manhattan þar sem nótnaforlög og lagahöfundar voru til húsa, og þar vann Gershwin sér inn fé með því að spila og selja nýjustu revíusöngvana. Ekki leið heldur á löngu þar til hann hafði sjálfur samið einn slíkan, sönglagið Swanee sem var hljóðritað af vinsælasta dægursöngvara landsins, Al Jolson, og seldist í milljónaupplagi. Í kjölfarið samdi Gershwin ótal söngleiki – flesta í samstarfi við yngri bróður sinn, textahöfundinn Ira – og sýndi meiri stórhug en almennt tíðkaðist í þeirri grein.

Metnaður Gershwins lá ekki síður á sviði konserttónlistar. Árið 1924 stóð stórsveitarstjórnandinn Paul Whiteman fyrir tónleikum í New York undir yfirskriftinni „Tilraun í nútímatónlist“. Tilgangurinn var að sýna hvílíkar „framfarir“ hefðu orðið á undraskömmum tíma í djasstónlist og stuðla að nýjum bræðingi hennar við hina „klassísku“ hefð. Fyrir þetta tilefni samdi Gershwin Rhapsody in Blue (Bláa rapsódíu) fyrir píanó og hljómsveit. Heitið vísar bæði til hinna tilþrifamiklu ungversku rapsódía Liszts fyrir píanó og verka bandaríska listmálarans James McNeill Whistler – sem bera heiti eins og Symphony in White eða Arrangement in Gray – en hjá Gershwin er „blá“ stemning djassins í fyrirrúmi. Víðfrægir eru upphafstaktarnir þar sem klarínett rennir sér í glissandó frá djúpum tóni upp á háan, eins og tíðkaðist í djassböndum en enginn klassískt menntaður hljóðfæraleikari hafði vogað sér að gera – fyrr en þá.

Vinsældir rapsódíunnar urðu til þess að auka Gershwin kjark til að takast á við hin stærri form. Næst samdi hann píanókonsert og að lokinni ferð til Evrópu árið 1928 varð til tónaljóðið An American in Paris (Ameríkumaður í París) þar sem greina má áhrif frá Ravel og Les Six. Allt féll þetta vel í kramið og fyrr en varði var Gershwin orðinn stórstjarna í tónlistarheiminum. Leiðandi tónskáld Evrópu dáðust að verkum hans – Ravel, Prokofíev og Alban Berg voru meðal þeirra sem lýstu hrifningu sinni – en sjálfur hafði hann af því áhyggjur að skortur á eiginlegu námi væri honum fjötur um fót. Hvenær sem hann hitti frægt tónskáld spurði hann hvort ekki væri möguleiki að fá nokkra tónsmíðatíma, en enginn vildi taka ábyrgð á því að leiðbeina manni sem hefði hlotið svo óvenjulega hæfileika í vöggugjöf. Sagt er að Ravel hafi svarað því til að betra væri að vera fyrsta flokks Gershwin en annars flokks Ravel.