EN

George Walker: Lyric fyrir strengjasveit

Bandaríska tónskáldið George Walker (1922–2018) fæddist í Washington D.C. og átti sér þann draum á unglingsárum að gerast konsertpíanisti. Hann hóf nám við Oberlin-tónlistarháskólann aðeins 14 ára gamall og stundaði framhaldsnám hjá Rudolf Serkin við Curtis-tónlistarháskólann í Fíladelfíu. Þar varð honum fljótt ljóst að svartur píanisti myndi eiga erfitt uppdráttar vegna þeirrar aðskilnaðarstefnu sem var við lýði í Bandaríkjunum og að lítið yrði um tónleikatilboð honum til handa. Hann hóf því tónsmíðanám í staðinn og hlaut þar meðal annars stuðning hinnar frönsku Nadiu Boulanger, sem var einn dáðasti tónsmíðakennari 20. aldar. George Walker varð eitt fremsta tónskáld Bandaríkjanna og hlotnaðist margvíslegur heiður fyrir verk sín. Meðal annars varð hann fyrsta svarta tónskáldið til að hljóta hin virtu Pulitzer-verðlaun í tónlist, árið 1996 fyrir verkið Lilacs fyrir sópran og hljómsveit. 

Kunnasta tónsmíð Walkers er hið undurfagra Lyric fyrir strengjasveit. Verkið samdi hann árið 1946, meðan hann stundaði nám í tónsmíðum við Curtis-tónlistarháskólann, og var það upphaflega annar þáttur í strengjakvartetti hans. Verkið er innileg og tilfinningaþrungin hugleiðing, tileinkuð ömmu tónskáldsins sem þá var nýlátin og sem upplifði sjálf þrældóm í æsku.