EN

Gísli Magnússon: Akvocirkulado

Gísli Magnússon nam tónsmíðar við Listaháskóla Íslands á árunum 2010 - 2013 og síðar við Konservatoríið í Amsterdam, þaðan sem hann lauk meistaraprófi vorið 2016. Helstu tónsmíðakennarar Gísla hafa verið Gunnar Andreas Kristinsson, Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson, Atli Ingólfsson, Joël Bons, Willem Jeths og Wim Henderickx, en auk tónsmíðanáms hefur hann sótt tíma í orgelleik hjá Birni Steinari Sólbergssyni og semballeik hjá Tilman Gey.

Gísli sækir óspart innblástur í náttúruna og dregur gjarnan upp skýrar og afdráttarlausar myndir af náttúrufyrirbrigðum í tónum. Verkum hans hefur meðal annars verið lýst með eftirfarandi orðum: 

„Hann skapar hljóðheima og hefur mikinn áhuga á ólíkum litbrigðum hinna ýmsu hljóðfæra. Það eru jafnframt miklir andstæður milli íburðarleysis og tónlistarlegrar ólgu. Ég upplifi verkið hans sem ferðalag um landslag.“ – Arnold Marinissen

Tónlist Gísla hefur verið flutt af ýmsum tónlistarmönnum og -hópum hér á landi, sem og í Svíþjóð og Hollandi, en heyrist nú í fyrsta sinn í meðförum Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Um verkið hefur tónkáldið þetta að segja:

Titill verksins, „Akvocirkulado“, er fenginn að láni úr esperanto og merkir „hringrás vatns”, og vísar þar með til hins stöðuga streymis vatns hér á jörðu: Frá hafinu, gufar það upp í andrúmsloftið, rignir aftur niður til jarðar, og streymir loks niður læki og ár, aftur til hafsins. – Þetta er ferlið sem ég reyni að lýsa í tónlistinni.