EN

Gunnar Andreas Kristinsson: Flekar

Gunnar Andreas Kristinsson stundaði nám við tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavik á árunum 1997–2001 og voru hans helstu kennarar þar Kjartan Ólafsson og Atli Heimir Sveinsson. Á þessu tímabili var hann skiptinemi í einn vetur við Tónlistarháskólann í Köln þar sem að Krzyztof Meyer kenndi honum tónsmíðar. Þá stundaði hann nám við Konunglega tónlistarháskólann í Haag hjá Martijn Padding, Diderik Wagenaar og Clarence Barlow, og lauk þaðan meistaragráðu sumarið 2004. Verk Gunnars hafa verið leikin víða um heim, meðal annars af Nieuw ensemble, Kammersveit Reykjavíkur, Nordic Affect og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hljómdiskur með verkum Gunnars, Patterns, hlaut Kraumsverðlaunin árið 2013 og verkið Arma Virumque Cano var valið til flutnings á ISCM World Music Days árið 2014.

Gunnar Andreas segir sjálfur um verk sitt: „Verkið er samsett úr tónmössum sem mætast eða skarast líkt og jarðflekar, með tilheyrandi núningi og spennumyndun. Efniviður verksins á rætur sínar að rekja til yfirtónaraðarinnar – einn eða fleiri grunntónar og náttúrulegir yfirtónar þeirra eru ávallt til staðar, leynt eða ljóst. Verkið var samið að beiðni Gunnsteins Ólafssonar vorið 2019 fyrir Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og frumflutt á Þjóðlagahátíð á Siglufirði sama ár en hljómar nú í fyrsta sinn í endurbættri útgáfu fyrir fullskipaða sinfóníuhljómsveit.“

Tónlistin á Íslandi
Flekar var frumflutt árið 2019 á Siglufirði en hljómar hér í endurskoðaðri útgáfu.