EN

Gunnar Karel Másson: Grisaille

Gunnar Karel Másson er fæddur árið 1984. Hann lauk B.A.-gráðu í tónsmíðum árið 2010 frá Listaháskóla Íslands, mastersgráðu frá Konunglega tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn árið 2012 og diplóma frá sama skóla árið 2014, en tónsmíðakennarar hans voru Tryggvi M. Baldvinsson, Úlfar Ingi Haraldsson, Bent Sørensen, Hans Abrahamsen, Jeppe Just Christensen, Niels Rosing Schow og Juliana Hodkinson. Hann hefur samið kammertónlist og tónlist fyrir fjölda leiksýninga hér heima og erlendis auk þess sem hann hefur starfað sem listrænn stjórnandi. Gunnar er meðlimur í DKF, leikhópnum 16 elskendur og S.L.Á.T.U.R.

Grisaille var pantað af Norrænum músíkdögum 2022 sem fram fara á Íslandi um þessar mundir, með styrk frá Tónskáldasjóði RÚV og STEFs. Um hljómsveitarverk sitt skrifar Gunnar:

„Innblásturinn að verkinu er fenginn að miklu leyti frá tableaux vivant, þar sem allegoríur og heimsfræg málverk eru sviðsett við tónlistarundirleik og er jafnan fleiri en ein mynd sviðsett á þennan hátt svo að myndist ein heild. Í þeim tilvikum sem þessar sviðsetningar voru gerðar í búningum sem voru í mismunandi gráum litum voru þau nefnd tableaux grisaille, og voru ljós og skuggar í aðalhlutverki í þeim sviðsetningum. Þessi nálgun var einnig notuð í málaralistinni þar sem ýmis málverk voru einnig sett í þennan mónókróm búning til þess að draga enn betur fram andstæður skugga og ljóss.

Í mínum huga eru þessi verk lýsandi að sumu leyti fyrir þá list sem er framin í samhengi sinfóníuhljómsveitarinnar, ljós og myrkur, skýrleiki og hula. Því í þeim verkum sem eru samin fyrir hljómsveit, og er Grisaille ekki undanskilið, eru litirnir oft af skornum skammti, og þá einnig meðhöndlun þessara lita. Með því að ýkja þessar takmarkanir í litavali, myndast einhverskonar stillur, eða tableaux, þar sem einróma raddir ráða ríkjum og einstaka lagrænar hreyfingar eiga sér stað þegar leikendur á sviðinu hreyfa sig frá einni mynd, eða allegoríu, til annarrar.

Önnur tilfinning sem ég lýsi í verkinu, er grámyglulegur hversdagsleiki, þar sem við erum föst í einhverskonar limbói hefða og venja og vitum ekki hvaða leið er út úr því hyldýpi sem lífið á 21. öld er. Þar sem allt sem við gerum hefur engan tilgang, en er um leið það merkilegasta og mikilvægasta verk sem við munum nokkurn tímann fást við. Því í því stutta lífskeiði sem okkur er úthlutað skiptir mestu máli hvað við gerum, en ekki nauðsynlega hvað við segjum. Getur risi eins og sinfóníuhljómsveitin hvíslað eins og gola í laufkrónum á blíðu haustkvöldi, eða er hún dæmd til þess að þramma um hálendið eins og jötunn rekinn í útlegð af þrumuguðinum Þór?“

Tónlistin á Íslandi
Um er að ræða heimsfrumflutning á Grisaille, en verk Gunnars Karels hafa áður verið flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands í tengslum við tónskáldastofuna Yrkju.