EN

Gustav Mahler: Sinfónía nr. 5

Gustav Mahler (1860–1911) var einn dáðasti tónlistarmaður sinnar tíðar en ekki var það fyrir tónsmíðar. Hann náði skjótum frama sem óperustjórnandi og hreppti ungur að árum stöður í Prag, Leipzig, Búdapest og Hamborg. Þrjátíu og sex ára gömlum hlotnaðist honum eitt áhrifamesta starf sem um gat í tónlistarheiminum, að verða aðalstjórnandi Vínaróperunnar. Mahler var gyðingaættar og sætti fordómum þess vegna, þurfti raunar að taka kristna trú til þess eins að verða gjaldgengur í starfið. Sjálfsmynd hans var brothætt og hann hafði á orði að hann væri „þrívegis heimilislaus, sem íbúi Bæheims í Austurríki, sem Austurríkismaður meðal Þjóðverja, og sem gyðingur hvar sem er í heiminum.“ 

Mahler var þróttmikill og metnaðarfullur stjórnandi. Við Vínaróperuna færðist hann þó fullmikið í fang og gerði miklar kröfur sem ekki öfluðu honum ávallt vinsælda. Þann 24. febrúar 1901 stýrði hann fimmtu sinfóníu Bruckners á síðdegistónleikum og Töfraflautu Mozarts um kvöldið. Strax að flutningi loknum veiktist hann alvarlega og var fluttur á sjúkrahús með innvortis blæðingar. Hann náði heilsu á ný, en dauðinn var honum ofarlega í huga eftir þetta og hann var þess fullviss að dagar hans væru senn taldir. Um sumarið dvaldi hann í fyrsta sinn í nýju sumarhúsi sínu við Wörther-vatn, og eins og hann átti vanda til notaði hann sumarmánuðina eingöngu til tónsmíða. Þegar tónleikahald hófst aftur um haustið átti hann í fórum sínum ný tónverk sem litast af tilhugsuninni um dauðann: tvo fyrstu kafla nýrrar sinfóníu auk þriggja Barnadauðasöngva (Kindertotenlieder) við ljóð eftir Friedrich Rückert.

Fimmta sinfónían markar nokkur tímamót á ferli Mahlers, því að í fyrsta sinn síðan í frumraun sinni notar hann hljómsveit án einsöngvara eða kórs. Sinfónían er gott dæmi um „brotakenndan“ tónsmíðastíl Mahlers, sem samtímamenn hans höfðu oft og tíðum lítinn skilning á. Einn gagnrýnandi sagði að sinfóníur hans væru „ekki annað en sinfónískt samsull“. Sterkar andstæður eru sannarlega áberandi í tónlist Mahlers og hann leitar víða fanga. Framvindan er óútreiknanleg, verkið getur fallið saman eða risið upp á nýjan leik fyrirvaralaust; eitt stef grípur fram í fyrir öðru eða hreinlega siglir það í kaf. Hér rúmast allar gerðir tónlistar: klezmer-lög og lúðrasveitarmúsík eiga þar jafnan tilverurétt og fágaðir Vínarvalsar eða djúphugul sálmalög.

Fimmta sinfónían er áhugavert dæmi um það sem nefnt hefur verið „framsækin tónmiðja“ (progressive tonality), sem þýðir að verkið hefst í einni tóntegund og því lýkur í annarri, og að framvindu tónlistarinnar má líta á sem þróun – jafnvel eins konar ferðalag – frá fyrri tónmiðjunni til hinnar síðari. Dúr og moll eru andstæðir pólar í allri tónsköpun en í tónlist Mahlers fá tóntegundirnar myndræna líkingu. Líf og dauði kallast á, dökkir moll-hljómarnir leita í átt að ljósinu. Í fimmtu sinfóníunni er þessu einmitt þannig farið. Þótt aðeins sé um að ræða lítið hálftónsbil er leiðin engu að síður löng og fjarri því að vera auðfarin, frá cís-moll – dimmri tóntegund útfararmarsins í fyrsta þætti – yfir í D-dúr, bjartan og sigurvissan. 

Sinfónían er í fimm köflum, sem Mahler skiptir niður í þrjá hluta. Fyrsti þáttur ber yfirskriftina „Útfararmars. Með hægu tónfalli; alvarlega, eins og líkfylgd.“ Lúðraþyturinn gefur tóninn strax í upphafi. Þótt fyrsta innkoma hljómsveitarinnar sé glæsileg líða aðeins nokkrir taktar þar til dökk og alvarleg stemning hefur náð völdum. Í kaflanum skiptast á tvær gerðir tónlistar: grimmur og miskunnarlaus mars annars vegar, hins vegar blíðara stef í strengjunum – eins og draumsýn eða ljúfsár endurminning. Eftir nokkur dramatísk upphlaup lýkur þættinum á útfararstefinu enn eina ferðina, en nú er það leikið ofurveikt, eins og líkfylgdin fjarlægist smátt og smátt. 

Annar kaflinn er ekki ósvipaður í efnistökum, eins konar úrvinnsla á útfarartónlist fyrsta kafla. Þetta er einhver sú stormasamasta tónlist sem Mahler samdi. Um miðbik þáttarins tekst tónlistinni að hífa sig upp í glæstan D-dúr og um skeið virðist sinfónían stefna að glæsilegum hápunkti. Þegar til kemur er þó aðeins um tálsýn að ræða. Bjartir dúr-hljómarnir verða að engu og þátturinn rennur smám saman út í þögnina. 

Miðhluti sinfóníunnar er lengsti kafli verksins og sá flóknasti hvað formið varðar. Nú er smám saman tekið að birta til í tónlistinni. Upphafið sver sig í ætt við austurrískan ländler, sveitadans í þrískiptum takti, en líkt og áður úir og grúir af sundurleitum tónhugmyndum. Fjórði kaflinn, hið fræga Adagietto, er „söngur án orða“ fyrir strengi og hörpu. Meginstefið er tregafullt, leikið af fiðlum sem hafa stuðning af safaríkum undirleik neðri strengjanna og kyrrlátum hörputónum. 

Lokaþátturinn er blanda af rondó-, sónötu- og fúgu-formum. Í stærra samhengi snýst kaflinn um leitina að réttri tóntegund. Þótt glaðlegt og ferskt rondó-stefið sem hljómar í upphafi kaflans sé að vísu í D-dúr – „hetjutóntegundinni“ sem verkið stefnir að – villist tónlistin fljótt af vegi. Mahler hafði lag á því að byggja upp væntingar sem aldrei rætast; hér byggir hann tvisvar upp stórfenglega hápunkta sem springa á limminu og hverfa út í tómið þegar síst skyldi. Að lokum kemst kaflinn þó á rétt ról, og honum lýkur í björtum og glansandi dúr rétt eins og vonir stóðu til.