EN

Gustav Mahler: Söngvar úr Des Knaben Wunderhorn

Gustav Mahler (1860–1911) var eitt mesta sinfóníuskáld sögunnar en hann samdi líka fjölda sönglaga. Í verkum hans fléttast einmitt saman með ýmsu móti sönglög og hin sinfóníska vídd. Í fyrstu fimm sinfóníum sínum vísaði hann til dæmis til eða notaði með beinum hætti sönglög sem höfðu orðið til fáeinum árum fyrr í öðru samhengi.

Des Knaben Wunderhorn er heiti á safni þýskra þjóðkvæða sem Achim von Arnim og Clemens Brentano gáfu út árið 1805. Líkt og margir þjóðfræðasafnarar 19. aldar fóru Arnim og Brentano frjálslega með efniviðinn. Báðir voru þeir skáld og ýmist lagfærðu það sem þeim þótti mega fara betur eða ortu inn á milli sín eigin kvæði í þjóðlegum stíl. Des Knaben Wunderhorn naut mikillar hylli og fjöldi tónskálda samdi lög við kvæðin, allt frá Schubert til Brahms, en enginn sótti þó þangað innblástur í sama mæli og Mahler. Eflaust hefur tilfinningabreidd ljóð- anna höfðað til hans, því að þau spanna allt frá ástarsorg til stríðsátaka, eru ýmist kaldhæðin, bitur, glaðvær eða íhugul, rétt eins og tónlistin sem hljómaði í höfði hans.

Mahler samdi níu lög við Wunderhorn-kvæði á árunum 1887– 90, fyrir söngrödd og píanó. Fram til ársins 1901 samdi hann fimmtán til viðbótar, sem öll eru með hljómsveitarundirleik. Þremur þeirra fann hann á endanum stað í sinfóníum sínum, en hin tólf standa saman sem eins konar óformlegur ljóðaflokkur. Mahler ákvað aldrei endanlega röð laganna og oftar en ekki velja söngvarar þau sem henta best eigin raddgerð fremur en að reyna við flokkinn í heild. Þannig er það einmitt á tónleikum kvöldsins; hér hljómar úrval laga sem Michelle DeYoung valdi sjálf með tilliti til raddgerðar sinnar.

Ólíkt fyrstu Wunderhorn-lögunum var seinni sveigur Mahlers frá upphafi hugsaður fyrir hljómsveit; öll hugsunin er „sinfónísk“ hvað varðar litbrigði og áferð. Tvö laganna urðu síðar efniviður í sinfóníu Mahlers nr. 2, fiskiræða heilags Antoníusar og hið ægifagra Urlicht sem hljómar á tónleikum kvöldsins. Wer hat dies Liedlein erdacht? er í sveitastíl en furðuerfitt í söng þótt það hljómi einfalt. Wo die schönen Trompeten blasen lýsir kveðjustund stúlku og elskhuga hennar sem er á leið í stríð. Ekki er fyllilega ljóst hvort hann vitjar hennar lífs eða liðinn, en Mahler gerir skýran greinarmun í tónsetningu sinni á lúðraþyti vígvallarins og blíðari ástarhótum stúlkunnar. Í Der Schildwache Nachtlied er sögusviðið einnig tengt hernaði; hér á vakthafandi hermaður erfitt með að standast blíðuhót stúlku einnar.