EN

Halldór Smárason: Infinite Image

Halldór Smárason (f. 1989) lauk framhaldsprófi í píanóleik samfara stúdentsprófi (sem dux scholae) vorið 2009. Hann lauk bakkalárgráðu frá Listaháskóla Íslands vorið 2012 og mastersnámi í tónsmíðum við Manhattan School of Music vorið 2014, þá sem Fulbright-styrkþegi. Vorið 2015 dvaldist hann í Vínarborg og sótti tíma hjá Beat Furrer. Í gegnum árin hafa aðalkennarar Halldórs verið tónskáldin Reiko Füting, Atli Ingólfsson, Tryggvi M. Baldvinsson og píanóleikarinn Sigríður Ragnarsdóttir. Halldór hefur unnið með mörgum þekktum listamönnum og hópum á borð við Ensemble intercontemporain, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Orchestre philharmonique de Radio France, Radio-Sinfonieorchester Stuttgart des SWR, Strokkvartettinum Sigga, Sæunni Þorsteinsdóttur, Talea, Psappha, TAK, Oslo Sinfonietta, Adelle Stripe, UK Sinfonia, MSM Symphony og Decoda.

Halldór segir sjálfur um verk sitt: „infinite image er annað verk Halldórs fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands, en hann tók þátt í samstarfsverkefninu Yrkju árið 2014-15. Verkið er byggt á ljóðinu Þoka eftir Sigurð Pálsson sem út kom í bókinni Ljóðnámuvöld árið 1990. Líkt og ljóðið hverfist infinite image í kringum mörkin milli hins sjáanlega og ósjáanlega, hins heyranlega og óheyranlega. Ljóð Sigurðar er einstaklega myndrænt og litríkt og hefur einhverja óútskýranlega orku sem tekur mann með í örferðalag sögupersónanna.

Titill verksins er fenginn úr ljóðinu sjálfu:
„Engin hljóð voru til nema niður sjávarins. Hvítar og gráar þoku-
myndir voru horfnar. Fyrir augunum höfðum við óendanlega
mynd í ótal grænum blæbrigðum. Einhvers konar sambland af
haffleti og túni.“

Forsíðu tónverksins prýðir svo óendanleg teikning eftir eins árs son tónskáldsins.