EN

Haukur Tómasson: Echo Chamber

Víólukonsert

Haukur Tómasson (1960) stundaði tónlistarnám við Tónlistarháskólann í Reykjavík hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni og Atla Heimi Sveinssyni, og síðar við Tónlistarháskólann í Köln, Sweelinck-tónlistarháskólann í Amsterdam og Kaliforníuháskóla (San Diego) þaðan sem hann lauk meistaraprófi árið 1990.

Meðal verka hans má nefna óperuna Fjórða söng Guðrúnar, 9 hljómsveitarverk, Fiðlukonsert sem saminn var fyrir Sigrúnu Eðvaldsdóttur, flautukonserta og ýmsa kammer- og kórtónlist. Haukur hefur hlotið fjölda viðurkenninga svo sem tvívegis verðlaun í tónverkasamkeppni RÚV, Bjartsýnisverðlaun Bröste 1996 og Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir verkin Ardente og Moldarljós. Þá bar verk hans Í sjöunda himni sigur úr býtum í samkeppni um tónverk til flutnings á opnunarhátíð Hörpu árið 2011.

Haukur fékk tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2004 fyrir óperuna Fjórði söngur Guðrúnar. Í næsta mánuði mun Víkingur Ólafsson frumflytja nýjan píanókonsert Hauks með NDR Elbphilharmonie Orchester undir stjórn Esa-Pekka Salonen.

Um verk sitt segir Haukur:

Echo Chamber (bergmálsrými) er hugtak sem notað er í fjölmiðlafræði um það þegar upplýsingar eða hugmyndir eru magnaðar með dreifingu og endurtekningu inni í „lokuðu“ kerfi, þar sem ólíkar eða andstæðar skoðanir eru bannaðar. Þegar Þórunn bað mig um að semja víólukonsert ákvað ég að vinna með ýmiss konar bergmálsrými í tónlist. Yfirleitt er það víólan sem leiðir umræðuna og síðan fylgja mismargir í kjölfarið.

 

Víólukonsertinn Echo Chamber var saminn á árunum 2012 til 2015 og er tæplega 20 mínútna langur í einum áttskiptum kafla. Konsertinn er tileinkaður Þórunni.