EN

Haukur Tómasson: Hún róar mig, endurtekningin

Haukur Tómasson (f. 1960) hefur um árabil verið eitt virtasta tónskáld Norðurlandanna en hann hlaut hin eftirsóttu Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2004 fyrir kammeróperu sína Fjórði söngur Guðrúnar. Haukur stundaði tónlistarnám í Reykjavík, Köln, Amsterdam og lauk mastersprófi frá Kaliforníuháskóla í San Diego. Verkaskrá hans hefur að geyma tónlist af ýmsum toga, kammertónlist og kórverk, einsöngslög, stór hljómsveitarverk og einleikskonserta sem hljómað hafa á tónlistarhátíðum víða um heim og í flutningi heimsþekktra hljómsveita á borð við Fílharmóníusveit Los Angeles og Elbfílharmóníuna í Hamborg.

Hún róar mig, endurtekningin er tilvitnun í japönsku myndlistarkonuna Yayoi Kusama (f. 1929) en þráhyggjukenndar endurtekningar eru eitt helsta einkenni listakonunnar og myndlistar hennar. Hljómsveitarverk Hauks sækir innblástur í myndlist Kusama sem hann kveðst hafa orðið fyrir djúpstæðum áhrifum af.

Hljómsveitarverkið er í þremur þáttum og hver og einn þeirra samsvarar ákveðnum flokki verka Yayoi Kusama. Sá fyrsti innblásinn af innsetningum þar sem rými er fyllt með doppóttum totum svo það umbreytist í töfrandi en á sama tíma annarlega veröld. Annar þátturinn, Punktar, línur, kúrfur, tengist tússteikningum Kusama þar sem síendurtekin mótív og mynstur svo sem augu, skordýr, punktar eða línur þekja hvíta örkina. Þriðji kaflinn, Óendanleiki, er innblásinn af mögnuðum innsetningum Kusama sem nefnast Infinity Rooms; myrkvað rými fullt af lituðum ljósum og speglum sem minnir á yfirþyrmandi víðáttur himingeimsins.

Ytri þættir verksins eru kyrrstæðir en millikaflinn einkennist af meiri spennu þar sem hljóðheimurinn er þurrari. Litríkur heimur Kusama endurómar annars í litadýrð sinfóníuhljómsveitarinnar, ekki síst í síðasta þættinum þar sem stjörnubjart slagverkið svífur yfir fljótandi strengjum. Unnið er með endurtekninguna verkið á enda, hendingar og rytmi, slaufur og sveiflur sem mynda mögulega hugrenningatengsl við þráhyggjukenndar blekteikningar á hvítri örk.

Myndlist hefur orðið Hauki kveikja að fleiri verkum, skemmst er að minnast hljómsveitarverks hans Jörð mistur himinn sem flutt var af SÍ fyrir réttri viku en áttaviti þess verks er myndlist Georgs Guðna. Eldra dæmi er svo Moldarljós (2011), sem Haukur vann ásamt myndlistarmanninum Eggerti Péturssyni.

Tónlistin á Íslandi
Þetta er heimsfrumflutningur verksins.