EN

Haukur Tómasson: Í sjöunda himni

Í sjöunda himni bar sigur úr býtum í samkeppni um tónverk til flutnings á opnunarhátíð Hörpu og var frumflutt í Eldborg 13. maí 2011 undir stjórn Petris Sakari. Verkið er glaðlegt eins og heiti þess gefur til kynna. Í upphafinu eru flögrandi tónarunur blásaranna áberandi en síðan vex fram þéttur strengjavefur og slagverksdeildin, þar með talin harpa, píanó og selesta, hefur einnig nóg að starfa. Þegar líður á verkið staflast þessi element svo upp á rytmískan hátt uns kemur að hápunkti sem ber yfirskriftina Estatico – í sjöunda himni!

Um verkið segir Haukur: „Við samningu verksins hafði ég meðal annars í huga að kanna hljómburð hússins. Þá hugsaði ég um allt þetta gler og þá speglun sem ég sá fyrir mér að yrði í glerhjúpnum. Það eru stef í tónlistinni sem vísa í það og ákveðin speglun í tónunum. Bókstafirnir h, a, r, p og a höfðu einnig mikil áhrif á hljóðvef verksins. Þannig hefst það á örveikum loftkenndum hljóðum sem maður hefði verið feiminn við að nota í Háskólabíói. Síðan taka við opnari tónar og hljómar (a), þá kliður (r), síðan blokkkenndir hljómar (p) og loks eins konar ítrekun á a.“