EN

Haukur Tómasson: Píanókonsert nr. 2

Haukur Tómasson (f. 1960) er í fremstu röð norrænna samtímatónskálda. Hann stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Tónlistarháskólann í Köln og Sweelinck listaskólann í Amsterdam áður en hann lauk meistaranámi í tónlist frá Kaliforníuháskóla í San Diego árið 1990. Haukur hlaut Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2004 fyrir kammeróperu sína Fjórði söngur Guðrúnar en verðlaunin eru æðsta viðurkenning sem norrænu tónskáldi getur hlotnast. Mörg fleiri verðlaun hafa fallið Hauki í skaut, hann hefur t.a.m. í þrígang hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin, síðast árið 2012 fyrir kammerverkið Moldarljós.

Píanókonsert nr. 2 var saminn að beiðni Elbphilharmonie-hljómsveitar norðurþýska útvarpsins og Fílharmóníusveitar Los Angeles. Hann var frumfluttur í Hamborg á liðnu ári af Víkingi Heiðari Ólafssyni og fyrrnefndu hljómsveitinni, undir stjórn Esa-Pekka Salonen sem í kjölfarið stýrði flutningi verksins í Los Angeles með hljómsveitinni þar. Konsertinn ber ýmis höfuðeinkenni tónsmíða Hauks, svo sem í hugmyndaríkri notkun slagverks og skýrt útfærðum rytmískum mynstrum í bland við þykkan hljóðvef. Hann er í einum kafla sem segja má að byggist í tvígang upp í hápunkt, með því móti að píanóið hefur leikinn ásamt stöku hljóðfæri en síðan bætast fleiri hljóðfæri og hljóðfærahópar í vefinn. Eftir síðari hápunktinn kemur eins konar vaggandi eftirþanki þar sem þrískiptur taktur eða þrjár nótur í sama takti eru áberandi um skeið, áður en píanóið eins og læðist upp á við og út úr myndinni. Haukur heldur einleikaranum við efnið, píanóið er „inni á vellinum“ allan tímann, og hlutverki þess er meistaralega skipt milli sólistískra tilþrifa og náins samspils með hljómsveitinni.