EN

Hector Berlioz: Sumarnætur

Villanelle
Vofa rósarinnar (La spectre de la rose)
Úti á lónunum (Sur les lagunes)
Í fjarlægð (Absence)
Í kirkjugarði (Au cimetière)
Eyjan óþekkta (L'île inconnue) 

Tónskáldsins Hectors Berlioz (1803–1869) er ekki minnst fyrst og fremst fyrir sönglagasmíð. Þó samdi hann yfir 50 slík og mörg þeirra sýna vel hve hann átti gott með að móta fallegar laglínur. Þau eru öll stök nema lögin sex sem hann felldi undir heitið Sumarnætur (Les nuits d'été). Hér er ekki um eiginlegan ljóðaflokk að ræða en öll eru lögin þó samin við ljóð eftir sama skáldið, Théophile Gautier (1811–1872), sem var nágranni Berlioz og vinur. Berlioz samdi fyrsta lagið snemma árs 1840. Ljóðið fékk hann úr ljóðabók Gautiers, La comédie de la mort, sem hafði komið út tveimur árum fyrr. Smátt og smátt bætti Berlioz við fleiri lögum - hann valdi þeim sjálfur heiti,

í samráði við Gautier, og einnig heitið á verkinu í heild. Árið 1841 voru lögin orðin sex og þau komu út í september það ár í útsetningu fyrir söngrödd (mezzosópran eða tenór) og píanó.

Á ýmsu gekk í einkalífi Berlioz þessi misseri. Það voru erfiðleikar í hjónabandi hans og leikkonunnar Harriet Smithson og hann tók upp ástarsamband við söngkonuna Marie Recio. Hún fylgdi honum í tónleikaferð árið 1843 og við það tækifæri gerði hann hljómsveitarútsetningu af einu laganna, sem Recio frumflutti í Dresden. Þrettán árum síðar útsetti Berlioz svo hin lögin fimm á sama hátt og gaf út en hann lifði það ekki að heyra öll lögin flutt í þessari gerð. Útsetningarnar eru meistaralega gerðar. Þær eru fyrir fremur litla hljómsveit og sýna innhverfari hlið á tónskáldinu en birtist í sinfónískum verkum hans.

Það er bjart yfir fyrsta laginu, Villanelle, þar sem elskendur halda út í skóg á vit fugla, dádýra og jarðarberja, en síðan læðist tregafull munúð að í söngnum um rósina sem fölnuð vitjar ungmeyjar í draumi. Næstu þrjú lög fjalla um missi og söknuð en í lokalaginu, Eyjan óþekkta, fær ljóðmælandi byr í seglin og spyr stúlkuna hvert skuli halda. „Að strönd tryggðarinnar, þar sem ástin varir að eilífu,“ segir hún. „Sú strönd er víst ekki til,“ svarar hann, „en hvert viltu halda? - það blæs byrlega!“