EN

Heitor Villa-Lobos: Fantasía

Brasilíska tónskáldið Heitor Villa-Lobos (1887–1959) var eitt helsta tónskáld Rómönsku Ameríku á 20. öld og naut mikilla vinsælda bæði heima fyrir og á alþjóðlegum vettvangi. Í stærri verkum sínum slær hann þjóðlegan tón, blandar flóknum hrynmynstrum brasilískrar tónlistar við þrástef og fjöltónalítet undir áhrifum frá Stravinskíj og Milhaud. Villa-Lobos samdi sum verka sinna undir áhrifum brasilískrar götutónlistar, til dæmis röð fjórtán verka undir heitinu Chôros (1924–29). Einnig samdi hann níu verk undir heitinu Bachianas Brasileiras (1930–45) þar sem renna saman áhrif brasilískrar tónlistar og nýbarokks, einkum Bachs eins og yfirskriftin gefur til kynna.

Saxófónninn er áberandi hljóðfæri í mörgum tónsmíðum Villa-Lobos. Sjálfur lék hann á klarínett og átti það til að grípa í saxófón þegar mikið lá við. Einn vina hans frá barnæsku var saxófónleikari að nafni Anacleto de Medeiros, og samstarf þeirra varð kveikjan að mörgum verkum Villa-Lobos fyrir hljóðfærið. Hann samdi töluvert af kammertónlist fyrir saxófón en notaði það einnig í hljómsveitarverkum sínum. Í fjórðu sinfóníu sinni biður hann meira að segja um saxófónkvartett.

Þótt saxófónninn hafi verið Villa-Lobos hugleikinn er Fantasían fyrir saxófón og hljómsveit eina einleikaverk hans fyrir hljóðfærið. Hann samdi verkið árið 1948 fyrir franska saxófónleikarann Marcel Mule, hóf smíðina í New York en lauk verkinu í Rio de Janeiro síðar sama ár. Mule lék Fantasíuna þó aldrei sjálfur, kvaðst aldrei hafa fundið hljómsveitarstjóra sem vildi gera því skil. Það var því pólskur saxófónleikari sem hafði flust til Brasilíu árið 1925, Waldemar Szpilman, sem frumflutti verkið í Rio de Janeiro árið 1951. Þess má til gamans geta að Szpilman þessi var náfrændi Władysław Szpilman, píanóleikarans sem komst lífs af í Varsjá á undraverðan hátt meðan á heimsstyrjöldinni síðari stóð, eins og hann gerði skil í endurminningum sínum og sem lýst var í kvikmyndinni The Pianist.