EN

Henri Tomasi: Trompetkonsert

Henri Tomasi (1901–1971) fæddist í Marseille í Frakklandi. Fimm ára gamall byrjaði hann í píanótímum og tónfræði, og sextán ára gamall fékk hann inngöngu í Tónlistarháskólann í París. Á unglingsaldri lék hann mikið á píanó á ýmsum skemmtistöðum, börum og veitingahúsum, og komu þá hans miklu hæfileikar til spuna og tónsmíða í ljós. Árið 1927 vann hann önnur verðlaun í keppninni Grand Prix de Rome fyrir kantötu sína Coriolan og fyrstu verðlaun í hljómsveitarstjórn. Tomasi vann svo fyrir sér bæði sem tónskáld og hljómsveitarstjóri.

Hann samdi trompetkonsert sinn árið 1948, en það er líklega hans vinsælasta tónsmíð. Konsertinn sprettur úr einum glaðasta tíma úr lífi tónskáldsins, en hann hafði nýlega eignast sitt fyrsta barn, stríðið var á enda, honum gekk vel í starfi og var vinsæll hljómsveitarstjóri víða um Evrópu.

Konsertinn þótti fyrst vera óspilandi, en er í dag einn sá mest flutti og mikilvægasti konsertinn fyrir trompet. Sjálfur sagði Tomasi um konsertinn að hann hefði reynt að sameina alla tæknilegu möguleika trompetsins, og heyra má innblástur allt frá konsertum Bachs til djass-trompettónlistar.

Fyrsti kaflinn hefst á trompetsólói þar sem kynnt er meginþema konsertsins, og svo tekur við annað stef, mjúkt og angurvært. Þátturinn endar á sólókandensu ásamt sneriltrommu þar sem leikið er með þemun tvö. Annar kafli er næturljóð og er tilbrigði á meginþemanu úr fyrsta kafla. Lokaþátturinn er fjörlegt og skemmtilegt tilbrigði við rólega stefið úr fyrsta kafla.

Ingibjörg Ragnheiður Linnet