EN

Hugi Guðmundsson: Box, harmóníkukonsert

Hugi Guðmundsson hefur um nokkurt skeið verið með áhugaverðustu tónskáldum sem við eigum. Nefna má nokkur verk því til staðfestingar, eins og Apocrypha (2005–2007) sem var frumflutt af Nordic Affect, Alkul, konsert fyrir kantele og strengjasveit (2014) sem var frumfluttur á Myrkum músíkdögum, Absentia, konsert fyrir fiðlu og kammerhljómsveit sem hann samdi til minningar um föður sinn og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir árið 2015, og óperuna Hamlet in Absentia 2016.

Box er orð sem hefur margvíslega merkingu. Það getur þýtt kassi, afmarkað svæði, hólf og svo auðvitað hnefaleika: átök milli tveggja einstaklinga þar sem annar stendur yfirleitt eftir sem sigurvegari. Átökin eru oftast mjög líkamleg en einnig er hægt að hugsa sér þau á sálfræðilegu sviði. Það er áhugavert fyrir áheyrandann að hafa þetta í huga meðan hlustað er á verkið. Hver eru hólfin og á milli hverra eru átökin? Eru það einleikarinn og hljómsveitin eða er þetta enn flóknara?

Konsertinn er í þremur þáttum og titlar þeirra gefa hugmynd um framvindu verksins. sá fyrsti, Unboxing vísar til sérstakrar tegundar youtube-­myndbanda þar sem fólk sýnir þegar það opnar kassa með nýjum hlutum. Áhorfandinn fær að gægjast ofan í kassann og inn í líf þess sem opnar um leið. Annar kaflinn ber heitið Machina þar sem Hugi leikur sér með hugtakið „deus ex machina“ eða guð í vélinni, sem þýða má þannig að óvæntu atriði eða sjónarhorni sé bætt við það sem fyrir er og breyti óleysanlegum aðstæðum. Það er gjarnan notað í leikhúsi eða textagerð. Þetta er talið ódýrt bragð, notað þegar allt er komið í hnút. Hér er einnig vísað til vélræns yfirbragðs kaflans. Síðasti kaflinn, Peripeteia eða Hvörf er hugtak sem fengið er úr skáldskaparfræði Aristótelesar og merkir þegar alger stefnubreyting – sem er þó sennileg eða óhjákvæmileg – verður á atburðarrásinni.