EN

Idin Samimi Mofakham: Zurvān

Idin Samimi Mofakham (1982) er fæddur og uppalinn í Teheran í Íran en er nú búsettur í Osló í Noregi þar sem hann hefur stundað doktorsnám í tónsmíðum frá 2019. Hann hóf tónlistarferilinn sem gítarleikari, útskrifaðist með BA-gráðu í klassískum gítarleik árið 2005 og stofnaði á sama tíma skammlíft tilraunaband sem bar heitið Mígreni og naut talsverðra vinsælda í íranskri neðanjarðarsenu. Hann hóf tónsmíðanám í Teheran árið 2005, útskrifaðist með mastersgráðu sex árum síðar og hefur aukinheldur sótt fjölmarga masterklassa hjá tónskáldum svo sem Beat Furrer, Alvin Lucier, Philip Glass, Christian Wolff og Peter Ablinger.

Mofakham hefur unnið til verðlauna fyrir tónlist sína í Íran, verið staðartónskáld á tónlistarhátíðum í Austurríki, Belgíu, Tékklandi, Bandaríkjunum og víðar og stutt af krafti við uppbyggingu tónlistarnáms í Íran. Verk hans hafa verið flutt af tónlistarhópum á borð við Klangforum Wien, Omnibus Ensemble og Saxófónkvartett Stokkhólms; hann hefur unnið til verðlauna og viðurkenninga fyrir tónlist sína í Íran og hlotið tilnefningar til tónlistarverðlauna fyrir plötur sínar. Mofakham er stofnandi dúettsins SpectreDuo ásamt eiginkonu sinni, hinni pólsku Martynu Kosecka en saman standa þau einnig að tónlistarmiðstöðinni Spectro Center for New Music.

Hann hefur þróað einstakan hljóðheim þar sem á ferskan og nýstárlegan hátt er byggt á írönskum tónlistarhefðum, tóntegundum, míkrótónum og blæbrigðum en doktorsverkefni hans hverfist um samþættingu persneskra og vestrænna tónlistarhefða. Þar hefur hann rannsakað skrif og tóntegundakerfi persneskra fræðimanna frá miðöldum en jafnframt hefur hann lagt sig eftir rannsóknum á sálfræðilegri skynjun á hljóði sem hreyfiafli og drifkrafti.

Hljómsveitarverkið Zurvān er tónaljóð í einum þætti fyrir stóra hljómsveit en titilinn og kveikjuna að verkinu er að finna í fornri persneskri goðsögu. Þar segir frá persneska guðinum Zurvān sem ríkti í upphafi alls. Zurvān þráði að geta son sem myndi geta skapað himin, jörð og allt þar á milli og færði í því skyni linnulausar fórnir til að óskin myndi rætast. Þegar fórnarathafnirnar höfðu engan ávöxt borið eftir þúsund ár varð guðinn gripinn efasemdum í augnablik og lái honum hver sem vill, en við það varð hann þungaður af tvíburum: Ohrmazd hinum ljósa sem var ávöxtur fórnanna og Ahriman hinum dökka sem efasemdirnar gátu af sér. Zurvān hét því að gera þann sem fyrr kæmi í heiminn að konungi og þegar hinn klóki og forsjáli Ahriman heyrði það rauf hann gat á kvið föður síns til að hreppa konungdæmið. Hann fékk sínu framgengt í rétt níu þúsund ár en eftir það tók Ohrmazd við konungdæminu og skapaði himin og jörð og allt það fagra og góða á meðan Ahriman hinn dökki skóp djöfla og drýsla, myrkur og illsku. 

Tónlistin á Íslandi

Þetta er í fyrsta sinn sem tónlist eftir Idin Samimi Mofakham er flutt á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands.