EN

Ígor Stravinskíj: Ítölsk svíta

Þegar rússneskur balletthópur Sergejs Diaghilev frumflutti ballettinn Pulcinellu í París vorið 1920 stóð á efnisskrá kvöldsins: „tónlist eftir Pergolesi, útsett fyrir hljómsveit af Igor Stravinskíj“. Hér var þó ekki nema hálf sagan sögð. Fyrr á öldum, þegar engin voru höfundarréttarlögin og óprúttnir útgefendur lögðu allt í sölurnar, fór oft svo að ef tónskáld náði miklum vinsældum flæddu á markaðinn tónsmíðar sem voru ranglega eignaðar viðkomandi tónskáldi. Meðal þeirra sem þannig eignuðust óvænt eftirlíf í prentvélum evrópskra nótnaforleggjara má nefna Josquin Despréz, Joseph Haydn, og ítalska tónskáldið Giovanni Battista Pergolesi (1710–1736). Á þeim 26 árum sem hann lifði samdi Pergolesi töluvert af stórkostlegri músík, m.a. gamanóperuna La serva padrona og hið undurfagra Stabat mater, sem var gefið út á prenti oftar en nokkuð annað verk á 18. öldinni (J.S. Bach gerði af því útsetningu við þýskan texta). Þó var Pergolesi ekki nærri eins iðinn við kolann og seinni kynslóðir vildu vera láta. Á seinni hluta 20. aldar, þegar fræðimenn tóku að kynna sér verk hans fyrir alvöru, uppgötvaðist að ekki nema 30 af þeim 330 verkum sem eignuð eru Pergolesi í handritum og nótnaprenti eru í raun og veru hans eigin tónsmíðar.

Þegar Diaghilev bauð Ígor Stravinskíj að klæða gömul barokkverk í nýjan hljómsveitarbúning stóðu báðir í þeirri meiningu að um verk Pergolesis væri að ræða. Raunin er hins vegar sú að þættirnir eru verk fimm tónskálda: þar eiga hlut að máli þeir Domenico Gallo, Carlo Monza, Wilhelm van Wassenaer, Alessandro Parisotti, og Pergolesi, sem á aðeins tíu af 21 númeri ballettsins í heild. En þótt margt hafi komið í ljós varðandi uppruna verkanna sem Stravinskíj studdist við verður hinu ekki neitað hvílík áhrif það hafði á hið tæplega fertuga tónskáld að fást við „gamla“ tónlist á þennan hátt. „Með Pulcinellu uppgötvaði ég fortíðina“, sagði Stravinskíj síðar í endurminningum sínum; „hún var sú uppljómun sem gerði allar síðari tónsmíðar mínar mögulegar. Ég leit um öxl, rétt er það – hið fyrsta sinn af mörgum sem ég daðraði við fortíðina – en um leið var ég að líta í spegil. Gagnrýnendur skildu þetta ekki þá, og ég var sakaður um að vera pasticheur [eftirherma], um að semja einfalda tónlist, sakaður um að hafa yfirgefið módernismann, um að hafa snúið baki við hinni rússnesku arfleifð. Jafnvel fólk sem hafði aldrei heyrt getið um frumgerðirnar hrópaði: „Guðlast! Sígildu verkin eru okkar eign. Láttu klassíkina í friði!““

Harkaleg viðbrögð samtímamanna Stravinskíjs vekja ekki síst furðu þegar þess er gætt að þetta fyrsta verk „nýklassíska“ tímabils hans er mun blíðara og nærgætnara en þau sem á eftir komu. Stravinskíj fer með efniviðinn af virðingu og létt kammerútsetningin hefur yfir sér klassískan blæ. Stundum leyfir tónskáldið sér þó að brjóta upp hinar hefðbundnu samhverfur í hendingaskipan „galant“-tímans með því að stytta eða lengja hendingar á óvæntan hátt, bæta inn óvæntum ómstríðum hér og þar, og jafnvel stundum nýjum mótröddum sem ávallt falla eins og flís við rass.

Þótt viðbrögðin hafi verið hörð í fyrstu naut Pulcinella fljótt vinsælda sem aftur varð til þess að Stravinskíj útsetti tónlistina fyrir dúó á árunum 1932–33, og heitir verkið þá Suite italienne (Ítölsk svíta). Gerðin fyrir fiðlu og píanó var gerð í samvinnu við fiðlusnillinginn Samuel Dushkin, en einnig er til útgáfa fyrir selló og píanó sem varð til um sama leyti.

Árni Heimir Ingólfsson