EN

Ígor Stravinskíj: Þættir úr Pulcinellasvítunni

Í kjölfar Norðurálfuófriðarins mikla eða fyrri heimstyrjaldar eins og stríðið er jafnan nefnt í daglegu tali komst mikið rót á menningu og listir. Hástemmd og tilfinningarík tónlist síðrómantíkurinnar átti ekki lengur upp á pallborðið, enda hljómaði hún tilgerðarlega í eyrum manna, auk þess sem ekki reyndist unnt að semja fyrir risavaxnar hljómsveitir. Eyðilegging stríðsins með stórkostlegu mannfalli kallaði á aðrar lausnir. Nú skyldi samið fyrir smærri hópa og tónskáld litu um öxl, horfðu meðal annars til tónsmíða 18. aldar og úr varð nýtt tímabil í tónlistarsögunni: Nýklassík. 

Nýklassík getur rúmað ansi margt en eitt einkenni hennar er að unnið er með tóntegundabundna hljóma og (stundum) fornar laglínur en þó með nýstárlegum hætti. Inn á milli hljóma ómstríðir tónar og verkin kunna á tíðum að hafa íróníska áferð. 

Það eru sennilega engar ýkjur að kalla Ígor Stravinskíj (1882–1971) hæfileikaríkasta tónskáld sinna daga. Hann gat brugðið sér í ótal líki, samið jöfnum höndum tónlist sem bar afar ólík stílbrigði en hljómaði alltaf nýstárlega. Frægastur varð hann fyrir samstarf sitt við listræna stjórnandann Sergej Djagílev sem gat af sér ballettana Eldfuglinn (1910), Petrúsku (1911) og Vorblót (1913) en um og eftir 1920 var Stravinskíj farinn að endurmeta tónmál sitt og hann reið á vaðið í nýklassískum stíl með ballettinum Pulcinella (1920). Upp úr honum samdi hann svo svítu sem frumflutt var í Boston árið 1922 og við heyrum fjóra þætti úr því verki í kvöld, númer eitt, tvö, fjögur og fimm.

Um það leyti sem Stravinskíj var að hefja innreið sína í nýklassík fann einmitt Djagílev nótur á safni í Napólí sem á þeim tíma voru eignaðar barokktónskáldinu Pergolesi (1710–1736). Síðar kom í ljós að verkin voru rangfeðruð og voru runnin úr pennum barokktónskálda á borð við Gallo, Monza og Parisotti. Það skipti hins vegar litlu máli. Stravinskíj nýtti sér laglínurnar í hinum nýja balletti. Ekki voru þó allir kátir með hinn nýja stíl tónskáldsins (síðar átti hann meðal annars eftir að semja oktett fyrir tré- og málmblásara og óperu-óratóríuna Ödípús konung í sama stíl). Þannig líkti Prokofjev stílnum við „Bach með bólusótt“ en Pulcinella hlaut góðar viðtökur áheyrenda og er verkið mikið flutt í dag, einkum hljómsveitarsvítan sem Stravinskíj samdi upp úr ballettinum.