EN

Ingibjörg Elsa Turchi: Anemos

Bassaleikarinn og tónskáldið Ingibjörg Elsa Turchi hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi og vakið verðskuldaða athygli fyrir tónlistarsköpun sína. Nýjasta plata hennar, Meliae, var valin plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021, ásamt því að hún var tilnefnd á sömu hátíð sem tónlistarflytjandi ársins, lagahöfundur ársins og útgáfutónleikar hennar voru tilnefndir sem viðburður ársins.

Ingibjörg lagði stund á jazzbassanám í Tónlistarskóla FÍH og lauk BA-gráðu í tónsmíðum árið 2020. Hún er einnig með BA-gráður í forn-grísku og latínu. Ingibjörg hefur leikið með mörgum af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar, svo sem Bubba Morthens, Stuðmönnum, Teiti Magnússyni, Emilíönu Torrini og svo mætti áfram telja, bæði á tónleikum og á hljómplötum og einnig starfað í hljómsveit í Þjóðleikhúsinu. Ingibjörg kemur einnig reglulega fram undir eigin nafni með hljómsveit sinni. Hún hefur gefið út tvær sólóplötur, Wood/work (2017) og Meliae (2020) en sú seinni hlaut Kraumsverðlaunin og var valin plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum, Morgunblaðinu og straum.is.

Verkið Anemos skiptist upp í þrjá stutta kafla sem kallast á við hvern annan í tónefni og áferð. Anemos er fengið að láni úr grísku og merkir vindur, en það lá ekki til grundvallar en á ágætlega við eftir á. Verkið byggist á ákveðnum hljómaferlum og áferðum sem lúta ákveðnum lögmálum sem svo eru leyst upp og endurhugsuð í ferlinu. Undiraldan er áköf en ofan á flæðir hið rólega og svo öfugt. Ferlið er vélrænt en einnig lífrænt, þegar hugmyndaflugið fær að ráða ríkjum. Verkið sjálft byggist upp á hljómum og vefjum sem ferðast saman og ýmist þjappast saman eða þenjast út í ferlinu og mynda hæðir og lægðir.