EN

Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir: Pons papilloma

Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir nam tónsmíðar við Listaháskóla Íslands á árunum 2013 til 2016 hjá Hróðmari I. Sigurbjörnssyni. Að útskrift lokinni hélt hún til Englands og stundaði starfsnám hjá Önnu Þorvaldsdóttur.

Ingibjörg hefur unnið með leikurum, sviðshöfundum, leik-, dans- og kammerhópum, kórum og kvikmyndagerðarmönnum. Hún skipar ásamt Ingibjörgu Fríðu Helgadóttur tónlistardúettinn Ingibjargir og er meðlimur í listhópnum Hlökk ásamt þeim Lilju Maríu Ásmundsdóttur og Ragnheiði Erlu Björnsdóttur. Verk hennar hafa verið flutt af tónlistarhópum á borð við Strokkvartettinn Sigga og Kammersveit Reykjavíkur og á tónlistarhátíðum svo sem Myrkum músíkdögum og Norrænum tónlistardögum. Ingibjörg samdi tónlistina við Fuglabjargið, tónleikhúsverk fyrir börn, sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu. Hún hefur unnið til Kraumsverðlauna og var árið 2019 útnefnd bjartasta vonin í flokki sígildrar og samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum. Hún hefur tvívegis hlotið styrk frá Tónskáldasjóði RÚV og vinnur nú að hljóðritun á verki sínu Hulduhljóð að handan ásamt Lilju Maríu Ásmundsdóttur en verkefnið var styrkt af Hljóðritasjóði.

Pons papilloma er samið að beiðni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Daníels Bjarnasonar. Til stóð að verkið yrði frumflutt á Myrkum músíkdögum árið 2021 en vegna heimsfaraldurs frestaðist flutningur þess í tvígang.

Pons papilloma er að sögn tónskáldsins kortlagning og úrvinnsla úr persónulegu áfalli. Titillinn felur í sér áfallið sem unnið er úr; pons þýðir heilastofn og papilloma vísar til heilaæxlis af plexus papilloma gerð. Að lokinni heilaskurðaðgerð, þar sem æxli sem hreiðrað hefur um sig við heilastofn er fjarlægt, glímir manneskja við aukaverkanir á meðan heilinn er að aðlagast breyttum veruleika. Við taka síendurtekin svimaköst, miklar sjóntruflanir og yfirþyrmandi jafnvægisleysi. Jörð skelfur í aðdraganda eldgoss á Reykjanesi og valda enn meiri ringulreið, var svimakastið kannski jarðskjálfti?

Verk Ingibjargar dregur á óvæginn hátt fram þetta myrka ástand, yfirbragðið gróteskt og skrykkjótt, örar hraðabreytingar, jafnvægisleysi og ókyrrð, undir kraumar ágeng spenna sem minnir óþyrmilega á þær ófyrirséðu náttúruhamfarir sem geta heltekið líf okkar.

Pons papilloma er annað hljómsveitarverk Lilju en á Myrkum músíkdögum árið 2019 frumflutti Sinfóníuhljómsveit Íslands verk hennar O sem hluta af YRKJU IV, vinnustofu SÍ og Tónverkamiðstöðvar. Verkið var sent fyrir hönd RÚV á Alþjóðlega tónskáldaþingið Rostrum í Argentínu árið 2019.

Tónlistin á Íslandi
Um heimsfrumflutning verksins er að ræða.