EN

J.S. Bach: Der Ewigkeit Saphirnes Haus

Kantatan sem þessi fallega aría tilheyrir er oft nefnd Trauerode (Sorgaróður). Hún var samin í tilefni af dauða og útför Christiane Eberhardine, konu Ágústs kjörfursta af Saxlandi, og frumflutt við minningarathöfn í Pálskirkjunni í Leipzig þann 17. október 1727. Það voru ungir aðalsmenn, stúdentar við háskólann í Leipzig, sem höfðu forgöngu um athöfnina og pöntuðu verkið hjá Bach og skáldinu Johanni Christoph Gottsched.

Kantatan er í tíu stuttum þáttum, skrifuð fyrir fjóra söngvara og litla sveit „blíðra hljóðfæra“ sem hæfðu tilefninu: tvær þverflautur, tvö óbó d’amore, tvær gömbur, tvær lútur, strengi og fylgirödd. Bach stjórnaði frumflutningnum sjálfur frá hljómborðinu. Þáttunum tíu var skipt í tvo hluta, fyrir og eftir minningarorðin sem forsprakki stúdentanna flutti. Arían Der Ewigkeit saphirnes Haus er fyrsta atriði seinni hluta. Þar er því lýst hvernig hin látna er umvafin geislum hundrað sólna í safírbláum heimkynnum eilífðarinnar.