EN

J.S. Bach: Hljómsveitarsvíta nr. 4

Ekki vitað með vissu hvenær hljómsveitarsvítur Johanns Sebastians Bach (1685–1750) urðu til en elstu varðveittu handrit þeirra eru frá þeim tíma er hann var kominn til Leipzig. Þangað fluttist Bach ásamt fjölskyldu sinni vorið 1723 til þess að taka við kantorsstöðu við Tómasarkirkjuna. Í Leipzig starfaði hljómsveit, Collegium Musicum, sem Tele­mann hafði komið á fót þegar hann starfaði í borginni tveimur áratugum fyrr. Hljóðfæraleikararnir komu margir úr hópi stúdenta við háskólann í Leipzig og hljómsveitin lék vikulega á einu stærsta kaffihúsi borgarinnar. Líklegt þykir að Bach hafi gengið til liðs við sveitina fljótlega eftir komu sína til Leipzig og víst er að árið 1729 varð hann stjórnandi hennar. Á hinum vikulegu tónleikum var flutt veraldleg tónlist af ýmsu tagi, bæði söngverk og hljóðfæramúsík. Þarna hljómuðu mörg af verkum Bachs sjálfs, þar á meðal hljómsveitarsvíturnar.

Hljómsveitarsvítur Bachs eru úrvals dæmi um svítur byggðar á hinum franska stíl þar sem öguð formfegurð er í fyrirrúmi. Hjá Bach er upphafsþátturinn í svítunum mjög stílfærð útgáfa á hirðdansinum allemande en yfirskriftin er þó einfaldlega ouverture eða forleikur (og reyndar hafði Bach það heiti um svítuna í heild). Forleikurinn er lengstur af þáttunum og hefur samhverfa byggingu; hann hefst á tignarlegum kafla, þá kemur hraðari millikafli en svo er stefjaefni upphafsins tekið fram að nýju. Á eftir forleiknum raðast svo styttri þættir sem bera heiti hirðdansa og það er breytilegt frá svítu til svítu hvaða dansa Bach velur. Í fjórðu svítunni raðar hann saman bourrée, gavottu og menúett áður en verkinu lýkur á hröðum gleðidansi, réjouissance. Dansarnir voru upprunalega þjóðdansar, fjörugir dansar sveitafólks, en þeir fengu á sig annan og stílfærðari blæ við frönsku hirðina — meðal annars hægðist yfirleitt mjög á þeim! Í meðförum tónskálda eins og Bachs er þessi efniviður færður á enn annað stig svo úr verður listilega ofin konserttónlist.