EN

Jacques Ibert: Flautukonsert

Jacques François Antoine Ibert (1890–1962) fæddist í París og byrjaði fyrir hvatningu foreldra sinna ungur að læra á fiðlu og píanó. Tvítugur að aldri fékk hann inngöngu í tónsmíðadeild tónlistarháskóla borgarinnar en meðal kennara hans þar voru Émile Pessard, fyrrum lærifaðir Ravels og André Gedalge en þekktir samnemendur hans í bekk Gedalges voru Arthur Honegger og Darius Milhaud. 

Fyrri heimsstyrjöldin og skyldur Iberts sem sjóliðsforingja töfðu tónsmíðanámið um hríð en að stríðinu loknu tók hann þráðinn upp að nýju. Árið 1919 vann hann - líkt og Gounod -  hin eftirsóttu Rómarverðlaun - Prix de Rome - sem gerðu honum kleift að stunda frekara nám við Frönsku akademíuna í Villa Medici í Róm. Þess má geta að Maurice Ravel gerði fimm tilraunir til að hneppa þessi verðlaun en án árangurs. Síðar á ævinni átti Ibert eftir að gegna stöðu forstöðumanns þessarar sömu stofnunar í ríflega 20 ár og um leið óopinberri stöðu sendiherra franskrar menningar á Ítalíu. Þá var hann um nokkurra ára skeið óperustjóri Parísaróperunnar og Opéra Comique.

Jacques Ibert samdi á ferlinum fjölbreytilegustu tónlist, meðal annars sjö óperur, nokkra balletta, kvikmynda- og leikhústónlist, píanó- og kammertónlist, hljómsveitartónlist, kórverk og fjóra einleikskonserta. Flautukonsertinn, sem er nr. 2 í röð konsertanna, er einn vinsælasti og mest leikni konsert sinnar tegundar. 

Konsertinn samdi Ibert að beiðni Marcel Moyse sem var einn af mikilmetnustu flautuleikurum liðinnar aldar. Fyrstu drög að verkinu ná aftur til ársins 1932 en Moyse frumflutti konsertinn árið 1934 undir stjórn annars nafntogaðs flautuleikara, Philipps Gaubert. Yfirbragð fyrsta kaflans er glæsilegt og eirðarlaust, hægi kaflinn aftur á móti ljúfur og syngjandi. Lokakaflinn er gletta sem rofin af angurværum og þenkjandi milliþætti áður en fjörið heldur áfram allt til enda.