EN

Jacques Offenbach: Þættir úr Gaîté Parisienne

Tónskáldið Jacques Offenbach (1819-1880) var kallaður “Mozart búlevarðanna” á valdatíma Napóleons III í Frakklandi. Hann átti einstaklega auðvelt með að semja grípandi laglínur og af lýsingum að dæma átti hann það sameiginlegt með Mozart að vera allnokkur æringi og ekki tekið hlutina - eða sjálfan sig - allt of hátíðlega. Offenbach fæddist í samnefndum bæ í Þýskalandi, hann sýndi snemma mikla tónlistarhæfileika og var sendur til Parísar í tónlistarnám. Hann hélst þó lítið við í ströngu akademísku námi en spilagleðina vantaði sannarlega ekki, sellóið var hans hljóðfæri og hann spilaði með óperuhljómsveitum í borginni. Fljótlega tók hann að stjórna hljómsveitum og 1855 opnaði hann sitt eigið óperuhús sem kallaðist Bouffes-Parisiens.

Nokkrum árum fyrr hafði franska heitið opérette komið fram á sjónarsviðið, það merkti einfaldlega lítil ópera og var eins konar andsvar við þungum viðamiklum óperusýningum sem tíðkast höfðu um hríð. Í óperettunni var glens og gaman, tal og tónlist skiputst á, þar var gert grín að ríkjandi ráðamönnum og stofnunum samfélagsins, svo sem aðli, kirkju og her, gamlar goðsagnir voru teygðar og togaðar og söguþráðurinn var stundum á velsæmismörkum, sem og sviðshreyfingar söngvara og dansara.  Offenbach var sannkallaður faðir óperettunnar, en hann mun hafa samið 100 verk í þeim anda og er sagður hafa rutt brautina fyrir söngleiki síðari tíma. Síðasta verk hans hafði þó alvarlegri undirtón, óperan Ævintýri Hoffmanns, en Offenbach lést meðan á samningu verksins stóð og annað tónskáld var fengið til að ljúka því.

Gaîté Parisienne eða Parísargleði er balletttónlist, samsafn þátta úr ýmsum tónsmíðum Offenbachs, sem franski hljómsveitarstjórinn Manuel Rosenthal (1904-2003) valdi og útsetti fyrir hljómsveit árið 1938. Ballettinn var frumsýndur í Monte Carlo af Rússneska ballettflokkinum í Monte Carlo, dansahöfundur var Léonide Massine. Í ballettinum er dregin upp mynd af næturlífi Parísaborgar í lok 19. aldar, á kaffihús kemur fólk af mismunandi sauðahúsi, góðborgarar, dansmeyjar, blómasölustúlka og barón, hermenn og spjátrungar, að ógleymdu þjónustufólkinu, sem byrjar að ganga frá þegar gestir hverfa út í nóttina eftir dufl og dans.