EN

Jean-Baptiste Lully: Le Bourgeois gentilhomme, svíta

Le Bourgeois gentilhomme (Uppskafningurinn) er eitt af síðustu leikritum Molières, samið árið 1670 og frumsýnt í október það ár við hirð Loðvíks 14. Verkið er svokallaður comédie-ballet, blanda af gamanleik og balletti með viðeigandi tónlist. Á frumsýningunni lék Molière sjálfur aðalhlutverkið, herra Jourdain, miðaldra vitgrannan mann af borgaraættum sem þráir það heitt að vera álitinn aðalsmaður. Í leiknum er hæðst að snobbi hans og tilraunum til að temja sér siði yfir­ stéttarinnar. Hann lætur sig meira að segja dreyma um að kvænast inn í aðalsstétt, þótt hann eigi skynsemdarkonu fyrir, og vill gefa dóttur sína aðalsmanni. Hún er aftur á móti ástfangin af manni af sínu standi sem tekst að blekkja Jourdain með því að þykjast vera sonur Tyrkjasoldáns. Jourdain heitir honum þá dóttur sinni og verður uppnuminn þegar „soldáns­ sonurinn“ tjáir honum að mægðunum fylgi tyrknesk aðalstign honum til handa. Blásið er til virðulegrar athafnar þar sem Jourdain er aðlaður að tyrkneskum hætti — en það er auðvitað allt í plati. Athöfnin sú hefst á viðhafnarmarsi sem að líkindum er þekktasta tónlistaratriðið úr verkinu og er meðal þeirra sem hljóma á tónleikunum í kvöld. Marsinn er í upphöfnum stíl eins og hæfir plat­tilefninu og ýmis slagverkshljóðfæri sjá um að ljá honum „tyrkneskt“ yfirbragð.

Tónskáldið var enginn aukvisi, sjálfur Jean­Baptiste Lully (1632–1687) sem fæddur var á Ítalíu en kom ungur til Frakklands og ílentist þar. Þegar þarna var komið sögu hafði Lully verið hirðtónskáld sólkonungsins í næstum tvo áratugi. Hann var þrautreyndur í að semja balletttónlist fyrir hirðina og hafði unnið áður með Molière að gamanleikjaballettum. Það hentaði honum vel, því hann var ekki einungis tónskáld og hljóðfæraleikari heldur einnig dansari, og sté meira að segja á svið í frumuppfærslunni á Le Bourgeois gentilhomme til þess að dansa í viðhafnarmarsi Tyrkjanna. Ævintýri herra Jourdains mörkuðu þó endalok samstarfs Lullys og Molières og skömmu síðar tók Lully að sér að stýra hinni konunglegu óperu, Parísaróperunni, og varð mikilvirkt óperutónskáld. Hann samdi nýja óperu á hverju ári og mótaði hina frönsku óperuhefð með því að laga óperuformið, eins og það hafði þróast á Ítalíu, að ballettarfleifð Frakka. Í frönskum óperum var því dansatriðum gert hátt undir höfði og þannig þróaðist hljóðfæratónlist sem meðal annars fann sér farveg í hljómsveitarsvítum, formi sem barst langt út fyrir landamæri Frakklands.