EN

Jean Françaix: Klarínettkonsert

Franska tónskáldinu Jean Françaix (1912–1997) var tónlistin var í blóð borin. Móðir hans var söngkennari og faðir hans veitti forstöðu tónlistarháskóla í Le Mans. Françaix lærði tónlist bæði í Le Mans og París, og fyrsta útgefna verk hans náði athygli hins fræga tónlistarkennara Nadiu Boulanger, sem hvatti hann áfram í listinni. Françaix sneiddi hjá módernisma 20. aldar en samdi tónlist sem er létt og áheyrileg. Sjálfur kvaðst hann líta á sig sem arftaka Josephs Haydns í tónlistinni enda einkennist tónlist hans oft af mikilli kímnigáfu – sem seint verður sagt að hafi almennt verið leiðarljós í tónsmíðum 20. aldar. Tónlist sem veitti hreina ánægju var takmark Françaix í listinni, en fyrir það hlaut hann oft skammir gagnrýnenda sem aðhylltust aðrar stefnur. Hann var afkastamikill og samdi yfir 200 verk, oftast í smáum formum, en einnig nokkra konserta sem eru þau verk hans sem oftast hljóma í flutningi sinfóníuhljómsveita.

Françaix samdi konsert sinn fyrir franska klarínettleikarann Jacques Lancelot, sem frumflutti verkið sumarið 1968. Lancelot var afburða góður einleikari og Françaix sá svo sannarlega til þess að hann fengi nóg að iðja í verkinu. Átta árum eftir að verkið hljómaði í fyrsta sinn skrifaði Jack Brymer í bók um klarínettutónlist að þessi konsert væri „verk fyrir framtíðina, hugsanlega, þegar hljóðfærið hefur þróast áfram eða sjálf mannshöndin hefur breytt um lögun.“

Verkið er í fjórum þáttum og er fyrsti kaflinn jafnframt sá lengsti, líflegt Allegro í sónötuformi. Annar þáttur er scherzó, en því næst kemur hægur kafli, stef með þremur tilbrigðum. Hraðasti þáttur verksins er sá síðasti, fjörugt rondó. Sjálfur sagði Françaix um verk sitt: „Konsertinn er skemmtilegur áheyrnar, eða það vona ég að minnsta kosti. Hann er eins konar flugsýning fyrir eyrun, með bakfallslykkjum, vængsveiflum og dýfum sem eru fremur ógnvekjandi fyrir einleikarann, sem þarf að hafa sterkan maga og eiga nokkur þúsund flugtíma að baki.“