EN

Jean Sibelius Ofviðrið, svíta nr. 2

Jean Sibelius var eitt af langlífari tónskáldum tónlistarsögunnar. Hann var á 92. aldursári þegar hann lést á heimili sínu árið 1957, en þá voru liðin ríflega 30 ár frá því að hann lét frá sér sín síðustu verk, tónaljóðið Tapiola og leikhústónlist við Ofviðrið. Tónlistarunnendur um allan heim biðu í ofvæni eftir nýrri sinfóníu sem sagt var að Sibelius hefði í smíðum en sjálfur ákvað hann að komið væri nóg. Að sögn Aino, eiginkonu Sibeliusar, safnaði hann saman ótal nótnablöðum, líklega að sinfóníunni langþráðu, hlóð í bálköst nærri heimili sínu og kveikti í, sennilega um 1940. Þess eru fá dæmi að tónskáld hætti störfum á besta aldri; raunar er aðeins eitt annað dæmi meðal frægustu tónskálda sögunnar. Gioachino Rossini dró sig í hlé frá óperusmíðum aðeins 37 ára en hélt þó áfram að semja smærri tónverk sér til ánægju.

 Tónlist Sibeliusar við Ofviðri Shakespeares var frumflutt í Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn 16. mars árið 1926. Leikrit Shakespeares, sem talið er eitt hans síðasta verk, fjallar um Prosperó, hertoga af Mílanó, sem bróðir hans Antóníó rænir völdum og sendir á haf út í fleytu ásamt dótturinni Míröndu. Þau taka land á eyju nokkurri þar sem Prosperó í krafti töframáttar síns tekur öll völd og neyðir tvær verur til þjónustu við sig; andann Aríel og Kalíban, son nornarinnar Sycorax. Prosperó töfrar fram storm sem skolar fjendum hans upp á strönd eyjarinnar. Með hjálp Aríels refsar Prosperó hinum seku, Míranda og Ferdínand heitbindast og Prosperó endurheimtir hertogadæmi sitt. 

Tónlist Sibeliusar er nokkuð viðamikil, telur samtals 35 atriði en flest eru þau stutt, taka eina til tvær mínútur í flutningi. Hann gerði síðar úr efninu tvær hljómsveitarsvítur og er röð kaflanna þar ekki sú sama og í leikritinu. Þættirnir í svítu nr. 2 eru stuttar og hógværar stemningsmyndir þar sem meðal annars bregður fyrir ljúfum dönsum gyðja og vatnadísa. Þess má til gamans geta að Thomas Adès hefur sjálfur samið glæsilega óperu við Ofviðri Shakespeares, sem var frumflutt við óperuhúsið í Covent Garden árið 2004.