EN

Jean Sibelius: Sinfónía nr. 1

Jean Sibelius (1865–1957) gerði sér snemma grein fyrir því að ef hann ætlaði að ná langt á heimsvísu yrði hann að finna leið til að tengja saman finnskt þjóðareðli og alþjóðlega strauma. Fram að árinu 1899, þegar hann samdi fyrstu sinfóníu sína, hafði hann skapað nokkur áhrifamikil tónaljóð þar sem hann sótti yrkisefnið í finnskan þjóðararf, en nú skyldi hann ná til víðari áheyrendahóps. Útkoman er að mörgu leyti merkileg. Í fyrstu sinfóníunni má heyra áhrif hinna ýmsu tónskálda sem stóðu Sibeliusi nærri á þessum árum, ekki síst Tsjajkovskíjs og annarra rússneskra höfunda. Um leið glittir
í tónmál sem ekki á sér neina hliðstæðu. Hljómar, laglínur, útsetning – allt ber sterk einkenni Sibeliusar jafnvel þótt önnur tónskáld komi upp í hugann af og til. Richard Falitin hitti naglann á höfuðið í gagnrýni sinni um frumflutninginn í apríl 1899: „Tónskáldið talar mál alls mannkyns, en tungutak hans er eigi að síður einstakt.“

Sinfóníur Sibeliusar eru þétt ofnar hvað tónefni varðar. Úr lítilli hugmynd vaxa nokkrar aðrar, og svo koll af kolli – tónlistin er í sífelldri endurnýjun en er þó kunnugleg um leið. Fyrsti þáttur hefst á dulúðlegu klarínettustefi við ókyrran nið pákunnar. Hér er að finna allt helsta stefjaefni sinfóníunnar þótt hlustandinn geri sér varla grein fyrir því við fyrstu kynni. Þótt Sibelius noti tónefnið af næstum klassískri sparsemi ólgar hér allt og kraumar af rómantískum blóðhita, svo minnir helst á Pathétique­sinfóníu Tsjajkovskíjs, sem varð til aðeins sex árum fyrr. Annar þáttur spannar einnig breitt svið tilfinninga. Hann hefst á undurveiku stefi sem gengur í gegnum nokkrar breytingar, auk þess sem bútar úr klarínettusólói fyrsta kafla skjóta einnig upp kollinum. Smám saman byggir kaflinn upp að afar áhrifamiklum hápunkti en róast þegar meginstefið hljómar í hinsta sinn.

Þriðji kaflinn er scherzó og hefst á aðsópsmiklum pákuslætti sem helst minnir á sambærilega þætti í verkum Bruckners. Ekki líða nema nokkrir taktar þar til síðrómantísk þungavigtin víkur fyrir snemmrómantískum léttleika í ætt við Mendelssohn, og héðan í frá skoppa lagbútarnir léttfættir milli strengja og blásara. Miðkaflinn er öllu rólyndari, og hér minnir hornablásturinn á fallega pastoral­millispilið í öðrum þætti. Lokaþátturinn hefst með þungbúinni endurtekningu strengjanna á klarínettustefinu úr fyrsta kafla. Þegar því er lokið tekur aðalstefið við, og nú fer allt á fulla ferð. Tónlistin ólgar af tilfinningahita og dramatískri tjáningu. Enn sem oftar er Tsjajkovskíj ekki langt undan. Þó hefði rússneski áhrifavaldurinn varla staðist freistinguna að láta kaflann enda í sigri björtum og hrósandi dúr, en hér eru endalokin bókstaflega tragísk. Að lokum er ekkert eftir nema örlagaþrunginn moll­hljómur sem deyr út, og tveir plokkaðir hljómar í strengjum gera lokaútslagið.