EN

Jean Sibelius: Sinfónía nr. 5

Jean Sibelius (1865–1957) hóf að semja 5. sinfóníu sína sumarið 1914. Markmiðið var að ljúka henni tímanlega svo flytja mætti hana sem aðalverk á tónleikum í tilefni fimmtugsafmælis hans árið eftir. Verkið sóttist honum seint og hann skrifaði í dagbók sína: „Það er eins og að Guð hafi kastað mósaíkbrotum úr himinhæðum og sagt mér að raða þeim rétt saman“. Verkið var þó frumflutt samkvæmt áætlun þann 8. desember 1915 og var vel tekið. En Sibelius var ekki ánægður. Hann endurskrifaði verkið árið eftir vegna þess „að mig langar að ljá nýju sinfóníunni minni annað og manneskjulegra form, jarðbundnara og hljómmeira“. Breytingin fólst aðallega í því að þjappa tveimur fyrstu köflunum saman í einn. Eftir hlustun ákvað hann að gera enn frekari breytingar en sú vinna tafðist vegna stríðsins og þeirrar pólitísku ringulreiðar sem fylgdi byltingunni í nágrannaríkinu Rússlandi og sjálfstæðisyfirlýsingu finnsku þjóðarinnar. Haustið 1919 hafði 5. sinfónía Sibeliusar loks tekið á sig þá mynd sem þekktust er í dag. Þess má þó geta að Osmo Vänskä hljóðritaði upphaflegu gerð sinfóníunnar með Lahti-hljómsveitinni árið 1997. Sibelius hélt sig löngum við hefðbundna stærð sinfóníuhljómsveitar á meðan skáldbræður hans og samtímamenn, Strauss, Mahler og Schönberg að ógleymdum Jóni Leifs, útfærðu verk sín oft fyrir risastórar hljómsveitir. Samt nær Sibelius að magna upp tignarlegan og þéttan hljóm í hljómsveitarverkum sínum og er 5. sinfónían gott dæmi um það. Í síðasta kaflanum færir Sibelius í tóna upplifun sem varð honum ógleymanleg, þegar sextán svanir svifu lengi yfir höfði hans áður en þeir stefndu burt og hurfu inn í sólargeislana.