EN

Jean Sibelius: Valse triste

Árið 1903 samdi Jean Sibelius (1865–1957) sex stutt verk fyrir leikrit mágs síns Arvids Järnfeld, Kuolema (Dauði). Einn þeirra bar yfirskriftina Tempo di valse lente - Poco risoluto. Sibelius endurskoðaði kaflann og var hann fluttur undir heitinu Valse triste 25. apríl 1904. Sló verkið þegar í gegn og hefur lifað sjálfstæðu lífi síðan.

Í leikritinu er valsinn leikinn sem baksvið eftirfarandi atburðar:   

„Það er nótt. Þreyta hefur yfirbugað soninn sem vakti við sjúkrabeð móður sinnar. Smám saman breiðist rauðleit birta um herbergið - tónlist heyrist í fjarska - roðinn og tónlistin færist í aukana þar til ómur af valsi berst okkur til eyrna. Móðirin vaknar, rís upp úr rúminu sveipuð síðu klæði sem líkist ballkjól og byrjar að hreyfa sig fram og til baka. Hún veifar höndunum og gefur bendingar í takt við tónlistina, líkt og hún væri að kalla til sín fjölda ósýnilegra gesta. Og nú birtast þau, þessi sérkennilegu ímynduðu pör og líða um í takt við ójarðneskan valstakt. Deyjandi konan gengur inn í danshópinn; hún reynir að fá óraunverulega gestina til að horfast í augu við sig en allir sem einn forðast augnaráð hennar.  Svo hnígur hún örmagna niður í rúmið og tónlistin hættir. Nær samstundis safnar hún öllum sínum kröftum og stígur dansinn á ný af meira kappi en fyrr. Dansararnir óraunverulegu birtast og hringsnúast í villtum takti. Þessi undarlegi gleðskapur nær hámarki - það er bankað á dyrnar sem fljúga upp á gátt - móðirin gefur frá sér örvæntingarfullt óp - draugalegir gestirnir hverfa - tónlistin deyr út. Dauðinn stendur í dyragættinni.“

Þýski fiðluleikarinn, tónskáldið og útsetjarinn Friedrich Hermann (1828–1907) klæddi Valse triste í þann búning sem við heyrum í kvöld. Hermann lærði tónsmíðar m.a. hjá Niels Wilhelm Gade og Felix Mendelssohn og var um árabil konsertmeistari Gewandhaus-hljómsveitarinnar í Leipzig.