EN

Jesper Nordin: Ärr

Jesper Nordin er fæddur árið 1971 í Stokkhólmi og nýtur mikillar velgengni á alþjóðavettvangi. Hann nam tónsmíðar í Stokkhólmi hjá Pär Lindgren, Bent Sørensen og William Brunson, síðar hjá Philippe Leroux við IRCAM í París og hjá Brian Ferneyhough við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum. Tónlist Jesper Nordin er kraftmikil og tilfinningaþrungin en í henni má finna áhrif úr ýmsum áttum, frá sænskri þjóðlagatónlist, rokktónlist og spunatónlist. Á meðal hljómsveitarstjóra sem hafa stýrt verkum hans má nefna Esa-Pekka Salonen, Daniel Harding og Kent Nagano og á meðal hljómsveita sem hafa flutt verk hans eru Fílharmóníusveit franska útvarpsins, Sinfóníuhljómsveitin í Basel, Konunglega fílharmóníusveitin í Stokkhólmi og útvarpshljómsveitir Svíþjóðar og Finnlands. Jesper Nordin hefur unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir tónlist sína sem hefur verið flutt á tónlistarhátíðum um allan heim. Hann hefur samið tónlist fyrir alls kyns hljóðfærasamsetningar og elektróník og hefur jafnframt á undanförnum árum getið sér gott orð fyrir þróun snjallhljóðfæra; hann er höfundur hljóðfærisins Gestrument sem tónlistarmenn um um víða veröld þekkja.

Ärr – eða Ör – byggir á tónlist sænsku metalhljómsveitarinnar Meshuggah, nánar tiltekið á laginu Bleed og flóknum og ágengnum taktvefnaði þess. Lagið kom út árið 2008 á plötunni obZen sem var sjötta breiðskífa sveitarinnar og fékk Jesper Nordin góðfúslegt leyfi hljómsveitarmeðlima til að nýta sér efniviðinn í hljómsveitarverk sitt.

Ärr er raunar hluti af hljómsveitarþríleik Nordin en verkin þrjú hverfast öll um sænskan tónlistararf og sögu, þungarokk, þjóðlagatónlist og klassískan óperusöng. Elst er hljómsveitarverkið Åkallan (2013) sem byggir á tónlist sænsku þjóðlagasveitarinnar Kulning og yngst er Öde (2015) sem byggir á upptökum með sænskum óperusöngvurum, allt frá Jussi Björling og Birgit Nilsson til samtímans. Verkin eru samin að beiðni þriggja stórra sænskra sinfóníuhljómsveita sem frumfluttu tónsmíðarnar á árunum 2013 til 2015 en hljómsveitirnar eru Sinfóníuhljómsveitin í Gautaborg, Sænska útvarpshljómsveitin og Konunglega fílharmóníusveitin í Stokkhólmi. Síðastnefnda hljómsveitin frumflutti Ärr í apríl 2014 undir stjórn Baldurs Brönnimann við dynjandi undirtektir tónleikagesta.

Tónlistin á Íslandi
Þetta er frumflutningur verksins á Íslandi og í fyrsta sinn sem tónlist Jesper Nordin er flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands.