EN

Joan Tower: Konsert fyrir hljómsveit

Joan Tower (f. 1938) er talin eitt fremsta tónskáld Bandaríkjanna af sinni kynslóð. Hún lauk doktorsprófi í tónsmíðum árið 1968 og hefur meðal annars unnið til Grammy-verðlauna fyrir tónlist sína, auk þess sem hún var fyrsta konan til að hljóta hin virtu Grawemeyer-tónskáldaverðlaun árið 1990. Gagnrýnandi The New Yorker hefur sagt hana vera „eitt fremsta kventónskáld allra tíma“ og Carnegie Hall efndi til hátíðar með tónlist hennar árið 2004.

Tower samdi Konsert fyrir hljómsveit árið 1991 að beiðni þriggja bandarískra sinfóníuhljómsveita, í New York, Chicago og St. Louis. Eins og heiti verksins gefur til kynna fær hljómsveitin öll að spreyta sig á krefjandi tónhendingum, rétt eins og í sambærilegum verkum eftir Béla Bartók, Witold Lutosławski og fleiri. Tower segir að Konsert fyrir hljómsveit hafi verið stærsta verk hennar fram að þeim tíma. Hún hafði þá nýverið samið þrjá einleikskonserta – fyrir klarínett, flautu og fiðlu – og sú reynsla hafði á sinn hátt áhrif á meðferð hljóðfæranna í hinu nýja verki. Hún segir sjálf að í Konsertinum fyrir hljómsveit séu einleikshendingar, dúettar og tríó ekki aðeins farvegur fyrir tónrænt innihald verksins heldur einnig útgangspunktur fyrir uppbyggingu forms og tónblæ verksins.

Tower segir ennfremur: „Eins og í öllum mínum verkum reyni ég að láta hugmyndirnar sjálfar leiða af sér tiltekna framvindu, reyni að vera næm fyrir því hvernig hver ný hugmynd er viðbragð við eða afleiðing þess sem á undan kom, á sterkan og eðlilegan hátt. Þetta hef ég lært með því að kynna mér verk Beethovens í þaula. Einleiksstrófurnar eru vissulega krefjandi en þær eru órjúfanlegur hluti verksins, útrás fyrir uppsafnaða orku fremur en að vera aðeins hannaðar til að sýna tæknilega færni. Ég þráaðist lengi við að kalla verkið Konsert fyrir hljómsveit, þar sem slíkt heiti ber ósjálfrátt með sér minningar um verk eftir Bartók og Lutosławski. Ég sættist ekki við titilinn fyrr en verkinu var lokið, og jafnvel þá með nokkrum semingi.“ Verkið er í tveimur samhangandi köflum sem taka samtals um hálfa klukkustund í flutningi.