EN

Jóhann Jóhannsson: Odi et Amo

Odi et Amo (2001) samdi Jóhann Jóhannsson fyrir leikverk Hávars Sigurjónssonar, Englabörn, sem frumsýnt var í Hafnarfjarðarleikhúsinu í september 2001. Samnefnd plata með tónlistinni úr uppsetninguni var fyrsta sólóplata Jóhanns og kom hún út í lok sama árs. Höfundur leikverksins lýsir tónlistinni sem óskaplega fallegri, að Jóhann hafi skapað skemmtilega andstæðu við innihald verksins sem er erfitt og átakanlegt, en þetta er fjölskyldusaga um sifjaspell. Hávar segir: „Þessi tónlist náði óskaplega vel þeim tóni sem lá þarna einhvers staðar á bakvið; sakleysinu sem væri verið að spilla.“

Odi et Amo er fyrsta og síðasta lag plötunnar og má segja að það rammi hana inn. Verkið er þar flutt af strengjakvartett, píanói og tölvugerðum kontratenór sem syngur ljóð rómverska skáldsins Catullus (87-57 f. Kr.) „Odi et Amo“ sem mætti þýða sem „Ég hata og ég elska“. Þetta er eitt frægasta ljóð skáldsins, eins konar yfirlýsing á tilfinningum til ástkonu hans, Lesbia.

Ōdī et amō. Quārē id faciam fortasse requīris.
Ég hata og ég elska. Hvers vegna gætir þú spurt.

Nesciŏ, sed fierī sentiō et excrucior.
Ég veit það ekki en ég geri það og ég kvelst.

Segja má að verkið hverfist einmitt um þennan texta og sönginn og eru strengirnir í undirleikshlutverki til þess að byrja með en verkið er í ABA‘ formi. Söngurinn líður hægt og fallandi áfram og fylgja strengir sönglínunni eftir með þykkum hljómum og löngum nótum. Á yfirborðinu er allt tært og stillt en undir niðri má skynja einhvern trega eða sorg. Í öðrum hlutanum er gert hlé á söngnum og vinna strengirnir úr sönglínunni á sinn eigin hátt. Dramatíkin vex og nær hápunkti þegar píanóið kemur inn með kontra-C sem það endurtekur það sem eftir er verksins. Söngurinn kemur aftur inn með sömu laglínu en strengjasatsinn hefur þróast yfir í tremaló og eykur það enn frekar á tregann.

Odi et Amo var fyrst flutt í leikverkinu Englabörnum í Hafnarfjarðarleikhúsinu í september 2001. Jóhann gaf svo tónlistina út í janúar í upphafi árs 2002 og voru það Eþos-kvartettinn, Matthías Hemstock og Jóhann sjálfur sem léku. Sömu flytjendur fluttu tónlistina úr Englabörnum á ný þann 12. apríl 2003 þegar breska útgáfan Touch endurútgaf hana á heimsvísu. Tónleikarnir voru haldnir í Borgarleikhúsinu sem hluti af 5 ára afmælishátíð 12 tóna og voru þeir í 15:15 tónleikaröðinni. Sömu flytjendur endurtóku svo leikinn í Hallgrímskirkju sem hluta af Airwaves hátíðinni 17. október 2003.