EN

Jóhann Jóhannsson: Virðulegu forsetar

Jóhann Jóhannson (1969-2018) hafði skipað sér sess sem eitt af virtustu kvikmyndatónskáldum samtímans þegar hann féll frá langt um aldur fram árið 2018. Hann vann þvert á tónlistarstefnur og strauma og átti mjög fjölbreyttan feril með margvíslegum hljómsveitum, HAM og Appart Organ Quartet. Hann gaf út níu sólóplötur, samdi tónlist fyrir leikhús og tók þátt í margvíslegum tilraunakenndum verkefnum og viðburðum. Hann hlaut Golden Globe-verðlaunin fyrir tónlistina í The Theory of Everything árið 2014 og var jafnframt tilnefndur til Óskars-, BAFTA- og Grammy verðlaunanna fyrir þá mynd, og hefur einnig hlotið tilnefningar til þessara verðlauna fyrir fleiri myndir.

Caput frumflutti Virðulegu forsetar á Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju árið 2003. Í kjölfarið var verkið hljóðritað í kirkjunni og gefið út á samnefndri plötu, bæði á Íslandi og alþjóðlega, haustið 2004. Virðulegu forsetar (2003) er klukkutíma langt tónverk fyrir ellefu brasshljóðfæri, slagverk, orgel, píanó og rafhljóð en hér í kvöld verður fyrsti hlutinn af 28 fluttur. Bygging verksins er samhverf og hringlaga en verkið hefst á hægu og virðulegu tíu takta stefi blásturshljóðfæranna. Þetta einfalda stef er svo endurtekið út allt verkið í margvíslegum útsetningum. Það hægist smám saman á tempóinu þar til um mitt verkið en þá hefur stefið fengið á sig ákveðinn sálmablæ. Í kjölfarið bætir smátt og smátt í hraðann á ný þar til hinum upphaflega hraða hefur verið náð. Rafhljóð krauma svo undir þessu stefi sem breytast hægt og rólega út verkið og saman skapa þessir hljóðfærahópar leiðslukennt verk.

Virðulegu forsetar var frumflutt af Caput hópnum á Kirkjulistahátíð 31. maí 2003. Jóhann Jóhannsson hélt útgáfutónleika fyrir samnefnda plötu 2. nóvember 2004 í Neskirkju. Jóhann vann svo sjónræna útfærslu á verkinu í myndlistarsafninu Safni í janúar 2005.