EN

Johann Sebastian Bach: Hljómsveitarsvíta nr. 1

Johann Sebastian Bach (1685–1750) samdi fjórar svítur fyrir hljómsveit, syrpur barokkdansa með viðamiklum forleik í upphafi. Sú í C-dúr sem hljómar í kvöld er talin elst þeirra en raunar er fátt vitað um tilurð hennar. Þær hljóðfæraraddir sem varðveist hafa eru frá fyrstu árum Bachs í Leipzig, um 1724, en líklegt þykir að hann hafi samið verkið áður, til dæmis í Köthen þar sem hann starfaði við hirð hins tónelskandi Leópolds prins á árunum 1717–23. Leópold var kalvínisti og því hljómaði engin tónlist í hirðkapellunni önnur en einradda sálmasöngur. Næstu sex árin einbeitti Bach sér því alfarið að hljóðfæratónlist, bæði einleiks- og kammerverkum, og má þar nefna sónötur og partítur fyrir einleiksfiðlu, svítur fyrir einleiksselló og Brandenborgarkonsertana frægu.

Fyrsta svíta Bachs fyrir hljómsveit heyrist fremur sjaldan í samanburði við svítur nr. 2 og 3, sem báðar hafa að geyma kafla sem eru með því kunnasta sem hann festi á blað. Frönsk tónlist setur svip á svítuna alla. Fyrsti þáttur er franskur forleikur, en svo nefnist það form sem Jean-Baptiste Lully festi í sessi í hirðóperum sínum og ballettum um miðja 17. öld, hægur inngangur og hraðari meginkafli þar sem hver rödd eltir aðra. Þá hljóma sex barokkdansar, í sumum tilvikum tveir af hverjum toga sem raðað er í eins konar ABA form, til dæmis Gavotte I – Gavotte II – Gavotte I leikin aftur. Fimm dansanna eru franskir að uppruna en voru viðfangsefni tónskálda víða um álfuna. Eini ítalski dansinn er Forlane, sem Bach notaði raunar sjaldan í verkum sínum. Þetta var vinsæll götudans í Feneyjum á 18. öld, oft leikinn á mandólín og kastaníettur, og bumbur slegnar í takt.