EN

Johannes Brahms: Akademískur hátíðarforleikur

Árið 1880 ákvað yfirstjórn Háskólans í Breslau (í dag Háskólinn í Wrocław í Póllandi) að heiðra Johannes Brahms (1833–1897) með heiðursdoktorsnafnbót. Brahms hugðist rita þakkarbréf til háskólans en hljómsveitarstjórinn Bernard Scholz sem átti frumkvæðið að tilnefningunni benti honum á að ætlast væri til að hann þakkaði fyrir sig með tónverki:... „skrifaðu góða sinfóníu fyrr okkur, vel útfærða en ekki of þykka“. Vel má ímynda sér stríðnisglampann sem kom í augu tónskáldsins við þessi skilaboð en í framhaldinu tók hann að sanka að sér þekktum stúdenta- og drykkjusöngvum sem hann útsetti og raðaði saman í syrpu.

Eftir stuttan inngang kynna trompetarnir Wir bauten ein stattliches Haus (Við byggðum veglegt hús). Strengirnir syngja því næst Der Landesvater (Landsfaðirinn) og þar á eftir spila fagottin Was kommt da von der Höh? (Hvað kemur þarna aðvífandi?) sem er eins konar busasöngur. Úr þessu efni vinnur tónskáldið áður en öll hljómsveitin sameinast í þekktasta laginu Gaudeamus igitur. Í forleiknum gefur að heyra kímnigáfu Brahms og glæsilegan hljómsveitarrithátt hans en sjálfur lýsti hann verkinu sem gáskafullri blöndu af stúdentasöngvum. Akademíski hátíðarforleikurinn var frumfluttur við sérstaka athöfn Háskólans í Breslau 4. janúar 1881. Brahms stjórnaði sjálfur flutningnum og tók við doktorsnafnbótinni. Ekki munu allir viðstaddir hafa verið sáttir við tónverkið enda settu léttúðugir stúdentasöngvarnir mark sitt á hátíðleika hinnar akademísku samkomu.