EN

Johannes Brahms: Píanókonsert nr. 2

Johannes Brahms (1833–1897) varði sumrinu 1881 í Pressbaum og lagði þar lokahönd á verk sem hann hafði haft í smíðum í fjögur ár: píanókonsert, hinn síðari af tveimur sem hann samdi fyrir eigið hljóðfæri. Þá var liðinn nærri aldarfjórðungur frá hinum fyrri, sem hlaut afleitar viðtökur við frumflutninginn og fældi Brahms frá konsertforminu
um langa hríð. „Númer tvö er allt öðruvísi,“ skrifaði hann vongóður til vinar síns, fiðluleikarans Josephs Joachim. Tónskáldið átti það raunar til að villa um fyrir vinafólki sem spurði hvernig tónsmíðavinnunni vatt fram. Elísabet von Herzogenberg hafði áður fengið misvísandi lýsingar á nýjum verkum frá Brahms, og nú tjáði hann henni að hann hefði samið „pínu- pínulítinn píanókonsert með örlitlu smáscherzói.“ Hermann Billroth fékk nóturnar að „nokkrum smástykkjum fyrir píanó“ með bréfi.

Þessar lýsingar gætu tæpast verið fjær sanni því að síðari píanó- konsertinn er eitt stærsta og kröfuharðasta verk Brahms. Konsertinn tekur enn lengri tíma í flutningi en sá fyrsti, sem þó var óvenjulangur, og hann er jafnvel enn „sinfónískari“ að allri gerð. Hér má til dæmis nefna hið augljósa, að hann er í fjórum þáttum, líkt og tíðkast í sinfóníum, í stað þriggja eins og venja er þegar konsertar eiga í hlut. Raunar var aukaþátturinn, scherzóið, kveikjan að öllu saman. Þegar Brahms samdi fiðlukonsert sinn handa Joachim árið 1878 hugðist hann hafa þar scherzó-þátt í d-moll, en hætti við og því er það verk þríþáttungur en ekki í fjórum köflum. Þetta sama stef fékk athvarf í píanókonsertinum sem varð til þremur árum síðar.

Píanókonsertinn nr. 2 er verk andstæðna. Tónlistin er stór í sniðum og gerir miklar kröfur til einleikarans um tækni og úthald. Þó einkennist verkið á heildina litið fremur af ljóðrænni yfirvegun en dramatískum tilþrifum. Malcolm Macdonald, sem ritaði prýðilega ævisögu tónskáldsins, hefur lýst því sem hálfgerðri „Überkammermusik“ – stofutónlist í öðru veldi – enda gerist það nokkrum sinnum að píanóið líkt og dregur sig í hlé sem einleikshljóðfæri til að spila kammermúsík í návígi með nokkrum meðlimum hljómsveitarinnar. Píanistinn þarf að hafa öll skapbrigði á valdi sínu, frá hnausþykkum hljómum og hröðum tónarunum sólistans yfir í fíngerðan áslátt hins hóg- væra meðleikara. 

Í fyrsta þætti konsertsins kennir margra grasa. Hann hefst á ljúfu samtali hornleikara og píanista, en skyndilega kveður við annan tón í kröftugum einleikskafla. Ljóðrænt yfirbragð upp- hafstaktanna snýr aftur en stundum dregur ský fyrir sólu.

Hugmyndin að scherzó-kaflanum kveiknaði út frá fiðlukonserti Brahms eins og getið var að ofan, og er hægur vandi að heyra óm af tvígripum fiðlunnar í kröftugum einleikspartinum. Ytri hlutarnir eru dramatískir, jafnvel harmrænir, en í tríókaflanum um miðbikið skiptir Brahms yfir í glaðværan dúr.

Í þriðja þætti verksins kveðjur við annan og blíðari tón. Hann hefst með því að annar einleikari stígur fram, nefnilega ein- leiksselló sem flytur undurfagrar hendingar á meðan píanist- inn situr þögull hjá. Tónlistarfræðingar hafa bent á að kannski hafi endurminningin um viðamikið sellósóló í píanókonserti Clöru Schumann frá 1835 kveikt sömu hugmynd hjá Brahms áratugum síðar, enda voru þau nánir vinir allt til æviloka. Segja má að þessi fagri þáttur sé nær því að vera „tvíkonsert“ en hefð- bundinn þáttur einleikskonserts. Brahms þróar sellóstefið áfram í leik píanistans og hugleiðir innihald þess með margs konar skrauthendingum; nóg er af töfrandi augnablikum þann tæpa stundarfjórðung sem tónlistin varir.

Lokaþátturinn er léttur og líflegur. Brahms hafði yndi af að bregða fyrir sig „sígaunastíl“ undir lok stórra tónverka og er seinni píanókonsertinn engin undantekning. Hér má heyra ávæning bæði af ungverskum dönsum og ástleitnum völsum, en í glæstum virtúósabúningi eins og vera ber.