EN

Johannes Brahms: Sex píanóstykki

Í maí árið 1890 skrifaði Brahms vini sínum, lækninum Theodor Billroth bréf þar sem hann sagði meðal annars að hann væri hættur að semja tónlist. Tónsmíðabindindið stóð ekki lengi því snemma árs 1891 heyrði Brahms klarínettukvintett Mozarts og f-moll klarínettukonsert Webers í flutningi klarínettuleikarans Richards Mühlfeld á tónleikum og varð svo gagntekinn að hann hófst þegar handa við að semja fyrir þennan nýja vin sinn. Strax þá um sumarið frumfluttu þeir Brahms og Mühlfeld Klarínettutríóið op. 114 og Klarínettukvintettinn op. 115 ásamt félögum úr Joachim-strengjakvartettinum. Þremur árum síðar bættust svo klarínettusónöturnar tvær op. 120 í safnið. Á tímabilinu þarna á milli samdi Brahms eingöngu verk fyrir einleikspíanó, Sjö fantasíur og Þrjú intermezzi (1892) og  Sex píanóstykki og Fjögur píanóstykki (1893).

Oft er sagt að haustblær leiki um síðari verk Brahms. Það má ef til vill til sanns vegar færa en þarf ekki að þýða uppgjafartónn ráði ríkjum. Píanóstykkin sex op. 118 sýna okkur margar hliðar tónskáldsins, melódíska snilligáfu, afburða úrvinnslutækni og stórt hjarta í fögru, auðþekkjanlegu tónmáli hans.

Verkið samdi Brahms sumarið 1893 í austurríska heilsulindarbænum Bad Ischl. Þangað leitaði hann gjarnan til að hvílast og njóta sumarblíðunnar sem hann unni svo mjög. Hún nærði líka sem oft áður sköpunarkraftinn - og núna síðustu píanóverk hans.

Ástríðufullur fyrsti kaflinn er stuttur og byggir á einu stefi. Allir hinir kaflarnir eru í A-B-A formi. Annar kaflinn er yfirmáta ljóðrænn en sá þriðji kraftmikill með lágstemmdum, dansandi B-hluta. Fjórði kaflinn er eins konar gletta í f-moll sem eftir tilbrigði um stefið í sammarka tóntegund (As-dúr) leitar eftir krókóttum en snilldarlegum leiðum til bjartra lokahljómanna í F-dúr. Í þeirri tóntegund heldur meistarinn áfram í syngjandi stefi næsta kafla og spinnur í miðhlutanum við það tilbrigði í D-dúr. Síðasti kaflinn byrjar líkt og lágróma hugleiðing. Smám saman hækkar röddin og verður sigurviss um stund áður en upphafstemað snýr aftur á alvarlegum nótum.