EN

Johannes Brahms: Sinfónía nr. 2

Að semja sinfóníu á síðari hluta 19. aldar var enginn hægðarleikur, einkum ef tónskáld báru sig saman við Beethoven, sem á þeim tíma var talinn fremstur meðal jafningja í tökum á sinfónísku formi, og telst kannski enn. Johannes Brahms (1833-1897) vildi svo gjarnan fylgja í fótspor hans, en framan af veittist honum það þrautin þyngri og barmaði sér yfir því að heyra stöðugt „óminn af fótataki risans“ að baki sér.

Það tók Brahms mörg ár að ljúka við fyrstu sinfóníu sína, en þá var líkt og losnaði um klakabönd, því sinfónía hans nr. 2 leit dagsins ljós aðeins einu ári síðar, árið 1877. Tæplega hefur spillt fyrir að á samningstímanum dvaldi hann á sumardvalarstað í Suður-Austurríki, Portschach, litlu þorpi við stöðuvatn, umkringdur fagurri náttúru. Enda sagði vinur hans, sem fékk sendar nótur að sinfóníunni um upplifun sína af verkinu: „Hér er ekkert nema blár himinn, lækjarniður, sólskin og græn forsæla!“ Umhverfið hafði greinilega örvandi áhrif á tónskáldið, því ári síðar dvaldi hann á sömu slóðum og samdi þá hinn fræga fiðlukonsert sinn, sem einnig er í D-dúr. Brahms skrifaði í bréfi til vinar síns að á þessum slóðum væru: „…svo margar laglínur flögrandi um að maður verður að vara sig á því að stíga ekki á þær.“

Það má til sanns vegar færa að sveitasælustemning ríkir í upphafi sinfóníu nr. 2, en síðan dregur ský fyrir sólu um hríð, drungalegir hljómar taka við. Ef grannt er lagt við hlustir má í fyrsta kaflanum heyra enduróm af frægri vögguvísu eftir Brahms, Wiegenlied. Sinfónía nr. 2 boðar enga byltingu í formi, enda tónskáldið fremur íhaldssamt í þeim efnum, en meðferð tónefnisins innan hins fasta forms þykir meistaralegt af hálfu Brahms. Þarna eru ríkulegir hljómar, hugvitsöm úrvinnsla stefja og fjölbreytt notkun hryns, sem gerir tónsmíðina spennandi og áheyrilega. Ljós og myrkur einkenna verkið, jafnt ljóðræn sem kröftug tilþrif, innhverf stemning í bland við tónlist sem opnar allar gáttir – kannski er það náttúran sjálf sem sýnir sig í góðri tónlist á borð við Sinfóníu nr. 2 eftir Brahms!

Sigríður Stephensen