EN

Johannes Brahms: Sinfónía nr. 3

Þeir Johannes Brahms (1833–1897) og Richard Wagner voru andstæðir pólar í þýskri tónsköpun á síðari hluta 19. aldar. Wagner samdi viðamiklar óperur sem voru gegnsýrðar af krómatík og voru að mörgu leyti framsæknar hvað tónmál og hljómferli snerti. Brahms var aftur á móti „klassíker“ að því leyti að hann hélt sig að mestu við þær gerðir hljóðfæratónlistar sem Beethoven hafði iðkað – sinfóníur og kammertónlist – og sömu form. 

Deilurnar milli áhangenda Brahms og Wagners tóku á sig ýmsar myndir. Þegar þriðja sinfónía Brahms var frumflutt í Vínarborg í desember 1883 fjölmenntu Wagneristar á tónleikana og hugðust taka dræmt í það sem á boðstólum var, en nærvera þeirra gerði aðdáendur tónskáldins aðeins enn ákafari í að hylla meistarann. Þegar upp var staðið voru viðtökurnar einhverjar þær bestu sem tónskáldið hafði nokkru sinni hlotið. Sjálfum þótti Brahms viðtökurnar jaðra við að vera óverðskuldaðar. Þó urðu þær til að hvetja hann til smíði nýrrar sinfóníu, þeirrar fjórðu og síðustu, sem hann hóf að semja ári síðar. 

Þótt þriðja sinfónían sé sú stysta af sinfóníum tónskáldsins er hún síður en svo léttvæg. Fyrsti þáttur er byggður á þriggja tóna hendingu, F-As-F, sem hljómar hvað eftir annað bæði sem stef og sem undirstaða hljómagangsins. Þessi tónaröð var svar Brahms við öðru stefi sem aldavinur hans, fiðluleikarinn Joseph Joachim, hafði eitt sinn samið: F-A-E. Það táknaði samkvæmt Joachim frei aber einsam (frjáls en einmana), en piparsveinninn Brahms svaraði á móti: frei aber froh (frjáls en glaður). 

Tónlistin er margræð allt frá fyrsta takti og margar spurningar vakna um leið og leikurinn hefst. Strax í öðrum takti rekast á F-dúr og f-moll með óvæntri hörku. Upphafshljómarnir í blásurunum eru í moll, en strengirnir svara með því að snúa stefinu á hvolf, og þannig breytist það í dúr. Tvíræðni og óvissa leynast í hverjum takti í þessum annars tígulega og upphafna kafla. 

Brahms kaus að nota ekki scherzo eða hraðan dansþátt í verkinu, heldur eru miðkaflarnir báðir hægir. Annar þáttur er ljúfur og innilegur, og hér eru blásarar í forgrunni. Upphafsstefið er leikið af klarínettum og fagottum, en lágfiðlur og selló bergmála lok hverrar hendingar. Þriðji kafli er þokkafullur en um leið tregablandinn. Hér fá strengirnir uppreisn æru, ekki síst sellóin sem leika tilfinningaþrungið upphafsstefið. Lokaþátturinn er ákafur og dramatískur. Hann hefst í moll, með ísmeygilegum línum sem leiknar eru ofurveikt og hvíslandi (sotto voce). Jafnvel þegar tónlistin verður ákafari tekst henni ekki að hrista af sér fjötra moll-tóntegundarinnar. Það er ekki fyrr en í lokatöktunum að síðasta ítrekun upphafsstefsins færir okkur áleiðis í átt að yndisfögru niðurlaginu – í glitrandi dúr.

Árni Heimir Ingólfsson