EN

Johannes Brahms: Ungverskur dans nr. 7

Ungverskir dansar þýska tónskáldsins Johannesar Brahms (1833-1897) eru meðal vinsælustu verka hans, um er að ræða safn af dönsum, 21 talsins, sem komu út í tveimur kippum, annars vegar 1869 og hins vegar 1880. Dansarnir eru samdi fyrir tvo píanóleikara sem leika fjórhent, Brahms samdi þá samhliða því að vinna að öllu alvarlegri verkum, dansarnir gætu hafa verið honum ákveðin hvíld frá smíði þeirra.

Á 19. öld naut ungversk tónlist talsverðrar hylli í Evrópu, ekki síst ef hún var krydduð áhrifum frá tónlist Roma-fólks eða sígauna, þar sem tilfinningunum var gefinn laus taumur. Brahms hafði kynni af slíkri tónlist frá fyrstu hendi, en á árunum kringum 1850 var hann meðleikari ungversks fiðlusnillings, Eduards Reményi að nafni, en sá lauk gjarnan tónleikum með því að spinna kringum þjóðleg stef frá heimaslóðum sínum.

Brahms bjó að kynnunum við ungversku tónlistina alla tíð og heyra má áhrif hennar í mörgum verka hans. Sumir ungversku dansanna eru þjóðlög, aðrir eru tónsmíðar samdar í þjóðlegum stíl, ýmist eftir Brahms sjálfan eða ungversk tónskáld. Síðar voru dansarnir útsettir af ýmsum tónlistarmönnum, ýmist fyrir hljómsveit eða smærri hljóðfærahópa. Ungverskur dans nr. 7 er úr fyrri dansasyrpunni frá 1869, hann byrjar í líflegum takti sem færist síðan í aukana og lýkur í miklu fjöri.